Félagsfundur boðaður vegna yfirvinnubanns

Ljósmæður hittast á mánudagskvöld til að undirbúa yfirvinnuverkfallið sem tekur …
Ljósmæður hittast á mánudagskvöld til að undirbúa yfirvinnuverkfallið sem tekur gildi á miðnætti á miðvikudag. mbl.is/Hari

Enginn fundur er á dagskrá í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins í næstu viku. Þetta staðfesta formenn samninganefndar ríkisins og samninganefndar ljósmæðra í samtali við mbl.is. Ljósmæður hafa boðað til félagsfundar á mánudagskvöld þar sem ljósmæður verða búnar undir yfirvinnuverkfallið sem tekur gildi á miðnætti á miðvikudag.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir að uppsagnir haldi áfram að tínast inn á meðan deilan dragist á langinn. Tólf uppsagnir tóku gildi um síðustu mánaðamót en það er um þriðjungur allra uppsagna ljósmæðra hjá Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum. Um næstu mánaðamót tekur næstu hluti uppsagnanna gildi og síðan næstu mánaðamót þar á eftir.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, hefur áhyggjur af stöðunni sem upp er komin eftir árangurslausan fund í síðustu viku og segir næstu skref óljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert