Graslaust þak á Hlíðarendahóteli

Hótelið verður á svæðinu næst Hringbraut, uppi í vinstra horninu …
Hótelið verður á svæðinu næst Hringbraut, uppi í vinstra horninu á myndinni. Ekki er þó lengur gert ráð fyrir grasi lögðu þaki. Tölvuteikning/Alark

Fyrirhugað hótel að Haukahlíð í nýju Hlíðarendahverfi þokast áfram í borgarkerfinu. Byggingarfulltrúi á enn eftir að samþykkja tillögurnar endanlega en vonast er til að það verði gert á næstu vikum.

Áformað er að reisa fjögurra hæða hótel að Haukahlíð 2 og verða 448 herbergi á hótelinu. Húsið er að mestu úr stöðluðum einingum frá CISM í Kína, að því er segir í umsókn um byggingarleyfið.

Upphaflega stóð til að fjórða hæð byggingarinnar þekti 50% af flatarmáli þriðju hæðarinnar, og húsið væri því mishátt, en í umsögn skipulagsfulltrúa nú er hins vegar heimilað að fjórða hæðin verði jafnstór og hinar. Þá eru kvaðir um grasi lagt þak felldar út.

Skipulagsfulltrúi leggur að mestu blessun yfir bygginguna auk þess sem fallist er á að slaka á kröfum um bílastæðafjölda. Nú er krafist eins bílastæðis á hverja 130 fermetra í stað eins á hverja 100. Er það í samræmi við verklagsreglur borgarinnar þegar um bílastæði við hótel ræðir. 

Fyrirtækið REY Hótel stendur að byggingunni. Heimilað byggingarmagn er 17.500 fermetrar á þrem til fjórum hæðum. 

Hótelið er 17.500 fermetrar á fjórum hæðum.
Hótelið er 17.500 fermetrar á fjórum hæðum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert