Kvíði fylgir samfélagsmiðlum

Ingi Þór Bauer og Stefán Atli Rúnarsson.
Ingi Þór Bauer og Stefán Atli Rúnarsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er samt enginn dans á rósum, við erum oft að vinna í 12 tíma á dag, sofum lítið, alltaf með kvíða því við verðum að klára auglýsingar en við þurfum samt að muna að vlogga. Það fylgir þessu mikill kvíði. Ég held að fólk vanmeti kvíðann sem fylgir samfélagsmiðlum. Hverju einasta myndbandi sem við deilum fylgir mikill efi – er þetta nógu gott? Eftir beinar útsendingar hugsar maður hvort maður hafi gert eitthvað asnalegt. Á sama tíma þarf maður að hugsa hvað maður á að vlogga í næstu viku.“

Þetta segja Stefán Atli Rúnarsson og Ingi Þór Bauer en í hverri viku fylgjast þúsundir áhorfenda með myndböndum þeirra á Youtube, og fá oft og tíðum nána innsýn í líf þeirra. 

„Við pælum oft í því hvers vegna við séum að vlogga,“ segir Stefán. „Peningurinn er ekki hvatinn á bak við þau. En síðan er maður kannski að labba í Smáralind og einhverjir krakkar nálgast mann og biðja um mynd, og þá munum við hvers vegna við gerum þetta. Þegar við fáum viðbrögð og góð komment frá fólki hvetur það okkur til að halda áfram. Við erum að gera efni sem fólki finnst gaman að horfa á og okkur finnst þetta gaman, og það er allur hvatinn sem við þurfum.“

Þeir segja eðlilegt að sýna sitt eigið líf. „Allir sem eru á samfélagmiðlum, hvort sem það er Facebook eða Instagram eða Snapchat, sýna mjög mikið af lífinu sínu og opna það fyrir áhorfendum að einhverju marki. Okkar kynslóð þykir þetta kannski eðlilegt, við erum öll búin að venjast því að koma stöðugt fram. Ég held að við séum ekki að ganga eins langt í að opna líf okkar fyrir áhorfendum og margir aðrir sem nota hefðbundnari samfélagsmiðla. Við eyðum miklum tíma í að klippa myndböndin til og við leggjum mikla vinnu í að ákveða hvað verður í því og hvað ekki. Á vissan hátt förum við inn í einhvern karakter þegar við erum að vlogga, karakter sem er ekki sá sami og við erum frá degi til dags.“

Nánar er fjallað um undraheima Youtube og tilvist Íslendinga á miðlinum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert