Sækja slasaðan mann í Reykjadal

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Nú fyrir stuttu voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna göngumanns sem slasaði sig á gönguleiðinni í Reykjadal ofan Hveragerðis. Ekki er um alvarlega áverka að ræða en viðkomandi er þó ekki göngufær. Björgunarsveitarfólk er á leið á staðinn og mun búa um áverkann og bera viðkomandi til byggða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg en nokkuð hefur verið um útköll hjá björgunarsveitum síðasta sólarhringinn. 

Í Geldingafellsskála, norðaustan við Vatnajökul, slasaðist göngumaður. Ekki var um alvarlega áverka að ræða en viðkomandi var þó ekki göngufær og var því björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum kölluð á svæðið til að sækja manninn. Um talsverða vegalengd er að ræða og komu björgunarmenn því ekki með viðkomandi til byggða fyrr en snemma morguns.

Björgunarsveitin Þingey fór í gærkvöldi og aðstoðaði ferðalanga sem fest höfðu bíl sinn stutt frá Réttartorfu við Sprengisandsleið. Ekkert amaði að þeim en þeir voru inni í bílnum úti í miðri á er björgunarmenn komu að þeim. Var bíllinn dreginn upp úr ánni og á þurrt.

Þá hafa björgunarsveitir á hálendisvakt einnig síðasta sólarhringinn sinnt nokkrum ferðalöngum sem fest hafa bíla sína í straumvatni eða drullu. Rétt er að benda á að í rigningatíð geta ár breyst hratt og því ætíð betra að leita upplýsinga um aðstæður áður en lagt er af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert