Stelpurnar kalla mig mömmu

Anna Guðrún, Hafdís, Louise og Heiðrún hittust í rigningunni í …
Anna Guðrún, Hafdís, Louise og Heiðrún hittust í rigningunni í Reykjavík á dögunum. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Stelpurnar kalla mig mömmu og nú kalla börnin þeirra mig ömmu. Þegar ég segi við vini mína að ég sé að fara til Íslands að heimsækja dætur mínar skilja þeir ekkert hvað ég er að meina. Fólk skilur ekki hvað maður getur orðið náinn skiptinemunum sínum.“

Þetta segir Louise Cox, rúmlega sjötug bandarísk kona, en þrjár íslenskar stúlkur, systurnar Anna Guðrún og Hafdís Harðardætur og frænka þeirra, Heiðrún Hauksdóttir, bjuggu hjá henni og eiginmanni hennar sáluga, Norman, í Ohio á áttunda og níunda áratugnum. Með þeim tókst traust vinátta sem hefur haldist fram á þennan dag. 

Louise segist njóta þess að hafa séð þær vaxa og þroskast og eignast börn. „En fyrir mér eru þær alltaf ungu stelpurnar mínar. En ég veit að þær eru orðnar fullorðnar konur og það gengur vel hjá þeim og það gleður mig. Og það sama gildir um manninn minn sáluga, hann naut þess mjög að fylgjast með þeim. Þetta er gott fólk. Maður lendir einhvers staðar á jörðinni og reynir að gera það sem maður getur. Líf mitt gjörbreyttist við að kynnast stelpunum,“ segir Louise.

„Og hún breytti lífi okkar. Þegar ég kom til baka hafði ég miklu meiri áhuga á heimsmálum og ferðalögum. Ég hef verið aktív í alþjóðlegum stjórnmálum og var í háskólaráði og stúdentaráði seinna meir. Louise vildi að ég sendi Ronald Reagan jólakort, en mér fannst það ekki góð hugmynd á sínum tíma,“ segir Heiðrún og hlær.

„Það er svo sérstakt að eiga svona skiptinemamömmu sem kemur svona reglulega og það er svo gott samband á milli okkar. Það er ótrúlega dýrmætt. Hún er bara mamma sem býr í Bandaríkjunum. Ég segi við barnabörnin að ég eigi tvær mömmur,“ segir Anna Guðrún. „Hún er með í öllu.“

Heiðrún bætir við:
„Þegar ég var skiptinemi hjá henni eignaðist Hafdís frumburðinn sinn, árið 1988. Og Louise skildi mig eftir og fór til Íslands til þess að heimsækja fyrsta barnabarnið!“ segir hún og hlær.
Louise segist geta lesið barnabækur fyrir íslensku barnabörnin sem hún fær stundum að passa.

Aðspurð hvort hún kunni eitthvað í íslensku, svarar hún á íslensku: „bara pínulítið“. Og bætir við á ensku: „Ég skil fullt og get lesið barnabækur.“

Nánar er rætt við „mæðgurnar“ í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert