„Þarna sérðu, guð er Sandari“

Börn og fullorðnir skemmtu sér vel í froðunni á Munaðarhólnum.
Börn og fullorðnir skemmtu sér vel í froðunni á Munaðarhólnum. mbl.is/Alfons

Um helgina fer bæjarhátíðin Sandara- og Rifsaragleði fram í Snæfellsbæ. Fréttaritari mbl.is, Alfons Finnsson, var á svæðinu og segir hann sólina hafa leikið við hátíðargesti í dag.

Hátíðin hófst á fimmtudag með vel sóttu uppistandi Ara Eldjárns í Frystiklefanum á Rifi og í gær fóru tvær keppnisgreinar í Vestfjarðavíkingnum fram í Tröð. Þar voru saman komnir ellefu kraftakarlar og fjöldi áhorfenda, sem skemmtu sér vel þrátt fyrir að mikið rigndi.

Í gærkvöldi var svo Slýsósúpa í gamla frystihúsinu á Hellissandi og fleiri skemmtiatriði.

Sólveig Bláfeld lét ekki sitt eftir liggja og renndi sér …
Sólveig Bláfeld lét ekki sitt eftir liggja og renndi sér með börnunum og brosti svo bara og hafði gaman af. mbl.is/Alfons

Í dag skein sólin á hátíðargesti og var ekki annað að sjá en hver maður brosti sínu breiðasta. Einn heimamaður sagði við fréttaritara: „Þarna sérðu, guð er Sandari.“

Nóg var um að vera í dag, meðal annars markaður í Röstinni, þar sem margt var á boðstólum. Einnig fór fram forntraktora-akstur og Latibær var með skemmtiatriði fyrir börnin.

Á markaðnum í Röst var taílenskur matur í boði.
Á markaðnum í Röst var taílenskur matur í boði. mbl.is/Alfons

Slökkvilið Snæfellsbæjar vakti þó allra mestu lukkuna í dag, en slökkviliðið var með froðu á Munaðarhólnum, sem óhætt er að segja að slegið hafi rækilega í gegn, bæði hjá börnum og fullorðnum sem réðu sér ekki fyrir kæti.

Í kvöld fer svo fram götugrill í öllum götum bæjarins og voru allir boðnir velkomnir til þess að njóta veitinga hjá íbúum. Í lokin verður dansleikur í Röst, þar sem heimahljómsveitin Ungmennafélagið leikur fyrir dansi og mun allur ágóðinn renna til styrkar sjóminjasafninu á Hellissandi.

Þessi unga dama var alveg búin á því eftir allt …
Þessi unga dama var alveg búin á því eftir allt fjörið í dag. mbl.is/Alfons
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert