Vildi senda RÚV á Þjóðminjasafnið

Paolo Rossi, markakóngur HM, varnarjaxlinn Giuseppe Bergomi, Dino Zoff, hinn …
Paolo Rossi, markakóngur HM, varnarjaxlinn Giuseppe Bergomi, Dino Zoff, hinn fertugi markvörður, og félagar með heimsbikarinn sumarið 1982. Ljósmynd/FIFA

„Hvað var það sem olli þessum ólíkindaviðbrögðum Sjónvarpsins? Um það hafa engin svör fengist önnur en þau, að forráðamennirnir viti ekki hvað sé að gerast í kringum þá. Þetta er vissulega ekki uppörvandi til afspurnar. […] Ég held að þetta breytist ekki nema með nýjum mönnum, sem eru tilbúnir að láta skriffinnsku víkja fyrir verkum, dáðleysi fyrir dug. En ef stofnunin heldur áfram í óbreyttri mynd, þá legg ég til að hún verði gerð að deild við Þjóðminjasafnið og sett undir yfirstjórn Þórs Magnússonar.“

Þessi klausa er úr lesandabréfi eftir Jón nokkurn Ólafsson sem birtist í Morgunblaðinu fyrir réttum 36 árum en allt ætlaði um koll að keyra þegar Ríkissjónvarpið skellti í lás og fór í sumarfrí 1. júlí 1982 – í miðju HM í knattspyrnu. Menn vönduðu stofnuninni ekki kveðjurnar í lesendabréfum og framkvæmdastjórinn viðurkenndi að ef til vill hefði skort framsýni.

Hópferð í svallbælið

Daginn sem úrslitaleikurinn fór fram birtist í Morgunblaðinu lesandabréf frá Baldri Hermannssyni, dagskrárgerðarmanni á Sjónvarpinu. „Nokkrir félagar mínir gerðu sér för til Amsterdam í vikunni sem var,“ skrifaði Baldur, „ekki til að njóta lystisemda þessa nafnfræga svallbælis Evrópu og ekki heldur í viðskiptaerindum; þeir fóru ásamt stórum fjölda annarra Íslendinga í leiguflugvélum til þess að sjá það sem þeim og okkur öllum var meinað að sjá hér heima; þeir skráðu sig inn á hótelherbergi á víð og dreif um borgina þar sem þeir gátu horft á beinar útsendingar frá Spáni í litasjónvörpum.“

Og Baldur hélt áfram: „Hversvegna fengum við hinir sem heima sátum ekki að njóta þessarar keppni? Hverskonar fólska er það eiginlega að slökkva á Skyggni þegar öll nauðsynleg tæki eru til reiðu og hvorki fjárútlát né fyrirhöfn eru umtalsverð?

Í samtali við Morgunblaðið 30. júní 1982 sagði Pétur Guðfinnsson, framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, meðal annars: „Okkur hefur ef til vill skort framsýni og fyrirhyggju að gera okkur ljóst fyrirfram hve gífurlegur áhugi yrði á heimsmeistarakeppninni hér á landi.“
Í máli hans kom einnig fram að þessi gífurlegi áhugi stafaði eflaust af beinu útsendingunum frá úrslitaleik enska deildabikarsins og enska bikarsins um vorið. Búið var að koma þjóðinni á bragðið.

Jarðstöðin ekki í sambandi

Tíminn hafði greint frá því að Sjónvarpið hefði getað fengið alla leikina beint hefðu ráðstafanir verið gerðar ári áður. „Já, ég sló þessu upp,“ sagði Pétur við Morgunblaðið, „en ég vil minna á að fyrir einu ári var jarðstöðin ekki komin í samband og við vissum ekki hvenær hún kæmi í gagnið.“

Halda ber því til haga að lýst var yfir í lok júní að Sjónvarpið kæmi úr fríi 11. júlí og sýndi upptökur frá undanúrslitaleikjunum og svo sjálfan úrslitaleikinn beint. 

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert