Aftur í örmum skírnarvottsins

Vincent Hermanson og George Valdimar Tiedemann endurskapa myndina 74 árum …
Vincent Hermanson og George Valdimar Tiedemann endurskapa myndina 74 árum síðar.

Þegar George Valdimar Tiedemann, sem er íslenskur í móðurættina, mætti í aldarafmæli gamals hermanns, Vincents Hermansons, á dögunum bjóst hann ekki við að enda í fanginu á afmælisbarninu. En það gerðist samt. 

Forsaga málsins er sú að þegar George Valdimar var skírður í Kristskirkju á Landakoti árið 1944 var Hermanson, sem var félagi föður George Valdimars í hernámsliðinu, vottur og var tekin ljósmynd af honum með barnið á tröppum kirkjunnar. 

Hermanson með George litla Valdimar á tröppum Kristskirkju í mars …
Hermanson með George litla Valdimar á tröppum Kristskirkju í mars 1944.

Það var hins vegar ekki fyrr en sjötíu árum síðar að George Valdimar komst að því hver maðurinn á myndinni var og fann hann í framhaldinu í nálægri sýslu, Bucks County, vestra. Með þeim tókst góð vinátta og Hermanson tók ekki annað í mál í afmælisveislunni en að endurskapa kirkjutröppumyndina 74 árum síðar. George Valdimar gat þó talið gamla manninn á að sitja að þessu sinni en ekki standa.   

Í tilefni af afmælinu færði George Valdimar vini sínum albúm með ljósmyndum frá Íslandsdvöl hans en hermennirnir voru margir hverjir duglegir að taka hér myndir. Hermanson dvaldist hér í tvö ár og sá sveit hans um viðhald á flugvélum. Eins og nafnið gefur til kynna er hann af norrænum ættum; faðir hans var finnskur. 

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Vincent Hermanson undir stýri á jeppa hersins við braggana sem …
Vincent Hermanson undir stýri á jeppa hersins við braggana sem risu og settu sterkan svip á stríðsárin hér á landi.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert