Lögregla kölluð til vegna utanvegaaksturs

Annar bílanna fastur í aurbleytu utan vegar í grennd við …
Annar bílanna fastur í aurbleytu utan vegar í grennd við fjallið Loðmund í dag. Ljósmynd/Páll Gíslason

Erlendir ferðamenn óskuðu í dag eftir aðstoð rekstraraðila í Kerlingarfjöllum, eftir að hafa fest tvær bifreiðar sínar í grennd við fjallið Loðmund, sem er á milli Kerlingarfjalla og Setursins, hálendisskála ferðaklúbbsins 4x4.

Akstur er bannaður á svæðinu, sökum þess hve blautt er enn á þessum slóðum.

„Þetta svæði er lokað,“ segir Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar ehf. sem rekur ferðaþjónustuna í Kerlingarfjöllum, í samtali við mbl.is. Hann tók meðfylgjandi myndir.

Hann segir að það hafi þó verið þrýstingur frá íslenskum bílstjórum að fara þessa leið upp á síðkastið, en eins og sjáist á óförum og náttúruspjöllum erlendu ferðamannanna sé hún ekki tilbúin, vegna snjóa og aurbleytu.

Páll segir að hann hafi neitað ferðamönnunum um hjálp úr ógöngum sínum en þess í stað hringt rakleiðis í lögregluna á Suðurlandi, sem kom á svæðið og fer nú með málið.

Akstur er bannaður á svæðinu, en ekki allir virða það.
Akstur er bannaður á svæðinu, en ekki allir virða það. Ljósmynd/Páll Gíslason

Gott samstarf við 4x4

„Við erum stöðugt að fá símtöl frá íslenskum bílstjórum sem vilja fara þetta, en við höfum átt mjög gott samstarf við ferðaklúbbinn 4x4 um að halda þessu lokuðu og að menn séu sammála um að vera ekki fara þetta fyrr en vegurinn er orðinn þurr,“ segir Páll, en leiðin sem um ræðir er sú þægilegasta á milli Kerlingarfjalla og Setursins.

Hann segir þannig að Íslendingar sýni því flestir skilning er þeim er synjað um að aka á þessu svæði, en erlendir ferðamenn velti því hins vegar minna fyrir sér hvort vegirnir séu hæfir til aksturs eða ekki.

„Ef menn ætla að verja náttúru þessa lands þá gengur það meðal annars út á það að berjast gegn þessum utanvegaakstri. Sum hjólför hverfa ekki,“ segir Páll að lokum.

Ekki hefur náðst í lögregluna á Suðurlandi vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina