Malbikunarframkvæmdir í Ártúnsbrekku

Malbikunarframkvæmdir munu standa yfir í Ártúnsbrekku nær óslitið næsta sólarhringinn.
Malbikunarframkvæmdir munu standa yfir í Ártúnsbrekku nær óslitið næsta sólarhringinn. mbl.is/Eggert

Malbikunarframkvæmdir hefjast í Ártúnsbrekku í kvöld. Þá er stefnt að því að malbika ystu tvær akgreinarnar í Ártúnsbrekku, frá Höfðabakkabrú og niður að mislægum gatnamótum við Reykjanesbraut, í aksturstefnu í átt að miðborg Reykjavíkur.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir frá kl. 18 í kvöld til kl. 7 í fyrramálið og verður vegurinn þrengdur í eina akrein á meðan, en hægt verður að komast hjáleið.

Er þeim framkvæmdum lýkur verður ráðist í malbikun á innstu akrein í Ártúnsbrekku, frá Höfðabakkabrú og niður að mislægum gatnamótum við Réttarholtsveg.

Ártúnsbrekkan verður þrengd í eina akrein á meðan, en áætlað er að framkvæmdir standi yfir frá kl. 9 í fyrramálið til kl. 19 annað kvöld.

„Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Akrafjallsvegi lokað í báðar áttir annað kvöld

Á þriðjudagskvöld og aðfararnótt miðvikudags er stefnt að því að malbika 3,7 km langan kafla á Akrafjallsvegi. Veginum verður lokað í báðar áttir á meðan og allri umferð beint norðan við Akrafjall og í gegnum Akranes.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir frá kl. 19 til kl. 07.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert