Fjölgi nýbyggingum með niðurgreiðslum

Ásmundur Einar Daðason eftir ríkisstjórnarfundinn.
Ásmundur Einar Daðason eftir ríkisstjórnarfundinn. mbl.is/Valli

Íbúðalánasjóður mun leita að þremur sveitarfélögum í tilraunaverkefni til að auka húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Þetta kom fram á fundi ríkisstjórnarinnar með sveitarstjórnarmönnum á Vesturlandi sem haldinn var að Langaholti í Snæfellsbæ í dag.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir verkefnið að norskri fyrirmynd. Húsbankinn norski er systurstofnun Íbúðalánasjóðs og hann stýrir átaki í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og í tilfellum einkaaðila sem miðar að nýbyggingum og útleigu á húsnæði á því sem kallað er kaldar byggðir, en það eru svæði þar sem byggingarkostnaður er yfir markaðsvirði fasteigna.

Meðal þess sem felst í norska fyrirkomulaginu er að Húsbankinn hefur umsjón með ráðgjöf, auk þess að aðstoða við skipulagningu og leggja jafnvel til fjárframlög um allt að 15% af byggingarkostnaði. Með þessu er byggingarkostnaður í reynd niðurgreiddur til að koma honum undir markaðsverð. Þá segir Ásmundur að í einhverjum tilfellum mætti leita leiða til að hækka markaðsverð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögurnar á blaðamannafundi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögurnar á blaðamannafundi. mbl.is/Valli

Tilraunaverkefninu er ætlað að leiða í ljós hvaða þættir norsku leiðarinnar henta á Íslandi. Gert er ráð fyrir að það geti farið af stað með haustinu og Ásmundur segist vonast til að í vor liggi fyrir hvernig megi gera þetta að almennu úrræði.

Hann segir að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi farið um víðan völl og rætt við áhugasama sveitarstjórnarmenn. Sjóðurinn muni hafa umsjón með að finna réttu sveitarfélögin í tilraunaverkefnið en grunnforsenda sé að sveitarstjórn hafi getu og vilja til að vinna húsnæðisáætlun og þar liggi fyrir að skortur sé á húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert