Forsetinn mætti í afmæli Karólínu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Karólína Björk Steinþórsdóttir afmælisbarn.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Karólína Björk Steinþórsdóttir afmælisbarn. Ljósmynd/Aðsend

Karólína Björk Steinþórsdóttir varð sjö ára gömul síðastliðinn laugardag og var haldin afmælisveisla af því tilefni líkt og gengur og gerist. Karólína útbjó myndarlegan gestalista og ákvað að bjóða forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í veisluna. Henni til mikillar gleði þáði forsetinn boðið og mætti með fjölskyldu sína í afmælið.

Forsetinn og fjölskylda hans færðu Karólínu afmælisgjöf.
Forsetinn og fjölskylda hans færðu Karólínu afmælisgjöf. Ljósmynd/Aðsend

Karólína býr ásamt fjölskyldu sinni rétt utan við Djúpavog. Móðir Karólínu, Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir, segir að dagurinn hafi lukkast vonum framar.

„Hún sendi honum bara boðskort stílað á Bessastaði tveimur vikum fyrir afmælið,“ segir Auðbjörg, en auglýst hafði verið að forsetinn yrði viðstaddur opnunarhátíð myndlistarsýningarinnar Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi nú um helgina. Því vissi Karólína að forsetinn yrði staddur í nágrenninu á afmælisdaginn.

Veislan var haldin í garði fjölskyldunnar þar sem var afmælisdagskrá og boðið upp á veitingar. Veðrið lék við afmælisbarnið og gestina líkt og sjá má á myndinni en sól og 18 stiga hiti var í veislunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert