Lögreglan varar við fjárkúgunartilraunum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fjárkúgunartilraunum á netinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fjárkúgunartilraunum á netinu. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuborgarsvæðinu varar við svikapóstum, sem sendir hafa verið til fólks að undanförnu. Í svikapóstunum segir að móttakandi tölvupóstsins hafi verið á klámsíðum og að sendandi póstsins hafi sýkt tölvuna af tölvuvírus, vefmyndavél tölvunnar verið virkjuð og myndband tekið af viðkomandi.

Því er síðan bætt við að greiða þurfi ákveðna upphæð með rafmyntinni bitcoin, til að forðast að myndskeiðið verði sent á alla tengiliðaskrá móttakandans. Einnig hefur borið á því að þeir sem sendi póstinn þekki lykilorð móttakanda og það jafnvel gefið upp.

Lögreglan vill benda á að ekki er mælt með að fólk greiði upphæðina sem svikahrapparnir krefjast.

Ekkert gefur til kynna að svikararnir hafi myndskeið

„Þetta eru svikapóstar sem sendir eru á tölvupóstföng sem ganga kaupum og sölum á vefnum og þegar lykilorð móttakandans er einnig gefið upp þá gefur það til kynna að þau lykilorð hafi komið upp í einhverjum lekum,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar um málið.

Lögregla segir að þetta virðist vera fjölpóstar og að ekkert gefi til kynna að þeir sem sendi póstinn hafi einhver myndskeið eða hafi í raun gert neitt af því þeir hóta.

„Þeir hafa í sumum tilvikum komist yfir einhverja skrá með lykilorðum og nota það til að ljá hótun sinni meira vægi, en það virðist vera allt sem þeir hafa. Þetta form er kallað vefveiðar og er vel þekkt, fjölpóstur er sendur á marga og reynt að skapa hræðslu og stress til að fá brotaþola til að senda peninga,“ segir í færslu lögreglu.

Lögreglan mælir með að fólk hylji vefmyndavél sína þegar hún er ekki í notkun og kanni einnig hvort tölvupóstföng og notendanöfn þeirra hafi verið í einhverjum lekum.

Það er hægt að gera með því að smella hér.mbl.is