Norskur fóðurframleiðandi sýnir Íslandi áhuga

Þessar sællegu kýr í Kjós hafa ekki þurft að glíma …
Þessar sællegu kýr í Kjós hafa ekki þurft að glíma við þann skort sem norsku frænkur þeirra glíma við. mbl.is/Styrmir Kári

Halldór Gíslason, landbúnaðarstjóri sveitarfélagsins Hå í Noregi, segir í samtali við mbl.is fóðurskortinn í Noregi alvarlegan og „Norðmenn kaupa allt það hey sem þeir komast yfir.“ Maren Bjorland, ráðgjafi hjá fóðurframleiðandanum Fiskå Mølle í Noregi, staðfestir við blaðamann að fyrirtækið sé að skoða innflutning frá Íslandi.

Halldór segist hafa rætt við norsku matvælastofnunina, Mattilsynet, og fengið þær upplýsingar að það væri ekki mikið sem myndi hindra hey innflutning frá Íslandi, þar sem reglur hér á landi um matvælaframleiðslu séu mjög strangar eins og í Noregi.

Samkvæmt Halldóri er það innflutningsaðila að tryggja að innflutt hey uppfylli kröfur sem gerðar eru og hafa menn í þessu samhengi mestar áhyggjur af dýrasjúkdómum og illgresi sem getur haft slæmar afleiðingar fyrir kornrækt. Hann segist nokkuð viss um þessi illgresi sem valda áhyggjum finnist ekki á Íslandi.

„Það er ekki neinstaðar hey að hafa eða annað lífrænt fóður í Norður-Evrópu,“ segir Halldór.

Eru að skoða Ísland

Bjorland segir fyrirtækið Fiskå Mølle vera að skoða möguleikann á að flytja inn hey frá Íslandi, en málið sé aðeins á byrjunarstigi og verið er að kortleggja flutningsmöguleika.

„Það er okkar mat að það er ákjósanlegast að flytja hey frá Íslandi þar sem það er líklegra til þess að uppfylla innflutningsskilyrði,“ segir Bjorland. Spurð hvort flutningskostnaður muni standa í vegi fyrir því að hey verði flutt milli landanna segir hún að það eigi eftir að koma í ljós.

„Það er ekki hægt að sjá fyrir hvert umfang stöðunnar verður, en bara hér í Agder-fylkjunum tveimur, sem eru ekki mikil landbúnaðarsvæði, vantar samkvæmt okkar útreikningum um 250 til 300 þúsund heyrúllur. Fóðurskorturinn er svo mikill að bændur komast ekki að hjá sláturhúsum til þess að fækka dýrum. Það eru biðraðir í Noregi og líka í Svíþjóð,“ staðhæfir Bjorland.

Lars Petter Bartnes, formaður norsku bændasamtakana Norges Bondelag, hefur sagt við blaðamann að líklega muni norskur dreifingaraðili sjá um kaup á íslensku heyi, ef af verður, og sjá um flutning til Noregs.

Minnst 34.325 dýr skortir fóður

Það er mikil samkeppni um hey og annað lífrænt fóður að sögn Bjorland sem segir skort vera það víða að erfitt gæti verið að afla þess fóðurs sem þörf er á. „Við komumst bara ákveðið langt með kraftfóðri, enda þurfa dýrin fjölbreyttari fæðu. Það er verið að leita allra leiða til þess að mæta eftirspurninni,“ segir hún.

Stofnað hefur verið vefsvæðið Forformidling (eða fóðurmiðlun). Þar geta bændur skráð hversu mikið hey þeir hafa til ráðstöfunar og hversu mikið þá skortir. Þá geta einstaklingar einnig skráð til leigu eða til frjálsra afnota sveiði sem geta komið til nota sem beitiland. Samkvæmt vefsvæðinu hafa norskir bændur til þessa skráð að 34.325 dýr þeirra skorti fóður.

Forformidling hefur kortlagt hluta þess fóðurskorts sem er í Noregi.
Forformidling hefur kortlagt hluta þess fóðurskorts sem er í Noregi. Kort/Forformidling
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert