Rannsaka á hvaða dýpi kvikan er

Öræfajökull. Skýr merki eru um ókyrrð í jöklinum og fjallið …
Öræfajökull. Skýr merki eru um ókyrrð í jöklinum og fjallið hefur þan­ist tals­vert út. mbl.is/RAX

Kvikuinnskot eru líklegasta skýring þeirrar aflögunar sem orðið hefur á Öræfajökli sl. tvö ár að mati Michelle Parks, eldfjallasérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Rannsóknir eru þó enn á frumstigi og skekkjumörkin því veruleg.

Almannavarnir ríkisins greindu frá því sl. föstudag að virkni Öræfa­jök­uls sé nú dæmi­gerð fyr­ir eld­fjöll sem búa sig und­ir eld­gos. Skýr merki séu um ókyrrð í jöklinum og fjallið hafi þan­ist tals­vert út. Rannsóknir benda þó til þess að rúm­máls­breyt­ingin síðan at­b­urðarás­in hófst sé um 10 millj­ónir rúm­metr­a, sem er sam­bæri­legt við kvikuinn­skot í Eyja­fjalla­jökli á ár­un­um fyr­ir gosið 2010.

Michelle ítrekar að þær upplýsingar sem nú liggi fyrir séu bráðabirgða. „Þess vegna eru líka veruleg skekkjumörk á þeim upplýsingum sem við höfum,“ segir hún og kveður því of snemmt að leggja mat að magn kviku undir Öræfajökli, eða að gera samanburð við kvikumagnið sem var undir Eyjafjallajökli fyrir gosið þar 2010.

Vinna að því að betrumbæta líkönin

Unnið er hins vegar að því að betrumbæta líkanið sem rannsóknirnar byggja á og þá hefur eftirlit með Öræfajökli verið aukið. „Við erum með nýja GPS-mæla á Rótarfjallshnjúki og svo erum við einnig með GPS-mæla við Sléttubjörg og báðir þessir staðir hafa sýnt hreyfingu suðaustur af jöklinum,“ segir hún.

Gröf sem byggja á athugunum síðustu tveggja ára sýni sömuleiðis aflögun og það sama geri gervihnattamyndir frá Sentinel- og Cosmo Skymed-kerfunum. Hún segir upplýsingar Veðurstofunnar frá Cosmo Skymed þó ekki ná nema til desember á síðasta ári, en á þeim tíma óskaði Veðurstofan eftir að gervihnattamyndir næðu til jökulsins.

„Við erum að vinna að því að betrumbæta líkönin og áætlanir á því hversu mikið kvikumagn kann að vera ástæða aflögunarinnar. Eins vonumst við líka til að geta gert okkur betur grein fyrir því á hvaða dýpi aflögunin á sér stað, sem og hvar í jöklinum,“ segir hún og kveðst gera ráð fyrir að nákvæmari niðurstöður liggi fyrir innan nokkurra vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert