Ríkisstjórnin ekki rætt lög á ljósmæður

Svandís Svavarsdóttir var á Snæfellsnesi vegna fundar ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna …
Svandís Svavarsdóttir var á Snæfellsnesi vegna fundar ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna á Vesturlandi. mbl.is/Valli

Ekki hefur komið til tals að setja lög á yfirvinnubann ljósmæðra, sem tekur gildi á miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Þetta segja bæði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Fyrir helgi taldi Svandís ótímabært að ræða slíkar aðgerðir og hún er enn þeirrar skoðunar. „Algjörlega. Það á að semja í kjaradeilum, það er mín grundvallarafstaða og hún hefur ekki breyst,“ segir Svandís. Hún segist enn telja það raunhæft markmið.

Spurð hvort einhugur sé um að verkfallsbann komi ekki til greina segir Svandís einfaldlega að málið hafi ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar.

Framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að öryggi sjúklinga gæti verið ógnað þegar starfsmenn þreytast, en fyrirsjáanlegt er að mikið álag verður á ljósmæður og annað starfsfólk spítalans þegar yfirvinnubannið gengur í garð.

Svandís segist hafa miklar áhyggjur af stöðunni og hafa gert um hríð. „Hver dagur er þungur og við vitum að róðurinn þyngist með hverjum deginum sem líður.“

Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins á mánudaginn eftir viku klukkan 10 í húsnæði ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert