„Þetta mun sjást í áratugi“

Ann­ar bíl­anna fast­ur í aur­bleytu utan veg­ar í grennd við …
Ann­ar bíl­anna fast­ur í aur­bleytu utan veg­ar í grennd við fjallið Loðmund. Ljósmynd/Páll Gíslason

„Þetta mun sjást í áratugi,“ segir Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar ehf. sem rekur ferðaþjónustuna í Kerlingarfjöllum, um náttúruspjöllin sem urðu vegna utanvegaaksturs tveggja franskra ferðamanna, í samtali við mbl.is.

„Þetta er í þannig jarðvegi að hann jafnar sig frekar seint. Hann er rennandi blautur vegna þess að fyrir neðan hann er snjóskafl. Þetta mun verða mjög lengi að jafna sig, áratugi,“ útskýrir Páll og tekur dæmi um hjólför á svipuðum slóðum sem hafa verið þar í hátt í 50 ár. 

Þarna rétt hjá, utarlega í Ásgarðsfjalli er enn hægt að sjá hjólför eftir Ómar Ragnarsson frá 1969,“ segir Páll.

Hann segir það gerast að fólk virði lokanir að vettugi þegar vegurinn er opnaður seint að sumri til. „Það er svo margt fólk sem er búið að merkja kort alla leiðina sem það ætlar að fara og það náttúrulega sækir ansi fast í þetta ef það ætlar sér að fara þessa leið,“ segir hann og heldur áfram:

„Svo er fólk búið að kaupa sér miða til Íslands og jafnvel eins og þessir [frönsku ferðamenn] sem flytja bílinn til landsins. Auðvitað dugir ekki eitt ómerkilegt skilti til að stoppa þá ef það er ekki neitt eftirlit,“ bætir Páll við.

Akst­ur er bannaður á svæðinu, en ekki all­ir virða það.
Akst­ur er bannaður á svæðinu, en ekki all­ir virða það. Ljósmynd/Páll Gíslason

Páll segir að ferðamennirnir hafi hringt í ferðaþjónustuna í Kerlingarfjöllum og starfsmaður frá honum farið á vettvang. Páll bannaði starfsmanninum að reyna að draga bílana upp úr drullusvaðinu enda hafi hann ekki verið á nógu öflugum bíl til þess. 

Ég bannaði honum að reyna það og lét lögregluna vita, segir Páll en bætir því við að hann hefði sjálfur getað farið á staðinn til að draga bílana en það hugnaðist honum ekki. 

„Þetta snýst um prinsippið,“ segir Páll að lokum sem er orðinn þreyttur á utanvegaakstri á svæðinu með tilheyrandi náttúruspjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert