Verið á óvissustigi frá því í haust

Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017. Rýmingaráætlun var gerð …
Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017. Rýmingaráætlun var gerð fyrir svæðið í nágrenni jökulsins í vetur. mbl.is/RAX

Rýmingaráætlun fyrir sveitirnar í nágrenni Öræfajökuls er tiltölulega ný af nálinni og á að ná vel til bæði heimamanna og ferðamanna á svæðinu. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Almannavarnir ríkisins greindu frá því sl. föstudag að virkni Öræfa­jök­uls sé nú dæmi­gerð fyr­ir eld­fjöll sem búa sig und­ir eld­gos. Skýr merki séu um ókyrrð í jöklinum og fjallið hafi þan­ist tals­vert út frá ára­mót­um 2016 og 2017. Þensl­unni fylg­ir auk­in jarðskjálfta­virkni og af­lög­un og eng­in merki eru um að hraði henn­ar fari minnk­andi.

Við erum búin að vera á óvissustigi síðan síðasta haust og það hefur í raun ekkert breyst síðan,“ segir Sveinn Kristján. Rýmingaráætlunin var útbúin í vetur í kjölfar þess að óvissustigi var lýst yfir og tekur því vel miðað við aðstæðum á svæðinu. „Þetta á að vera komið í nokkuð góðan farveg,“ bætir hann við

Hafa svæðið ferðamannafrítt

Sveinn Kristján segir fyrstu viðbrögð, ef ákveðið verður að fara af óvissustigi, vera að takmarka umferð um svæðið „og hafa það tiltölulega ferðamannafrítt“, bætir hann við. Næstu skref eftir það séu að loka svæðum og senda fólk burt, en slíkt sé gert með aðstoð björgunarsveita og heimamanna.„Við erum hins vegar alls ekkert komin þangað.“

Rólegt hefur líka verið yfir svæðinu undanfarinn sólarhring að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. „Það eru fáir skjálftar og ekkert sérstakt að sjá í gasinu, eða ánum,“ segir hún og kveður GPS-hreyfingar líka á svipuðu róli og verið hefur. Vel sé þó fylgst með ástandinu, en á þessu stigi sé ekki hægt að segja til um hvort gos sé líklegt næstu mánuði eða ár. „Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að það verði í dag eða á morgun,“ segir Sigþrúður.

Rýmingarleiðir undir Öræfajökli.
Rýmingarleiðir undir Öræfajökli. Kort/Almannavarnir

Alltaf einhverjir dauðir punktar

Aðstæður varðandi farsímasamband eru góðar í nágrenni Öræfajökuls, að sögn Sveins Kristjáns, og ekki mikið um staði sem eru utan þjónustusvæðis. „Að minnsta kosti ekki þar sem fólk er öllu jöfnu, en það eru náttúrulega alltaf einhvers staðar dauðir punktar,“ bætir hann við. Tækniframfarir gera aðstæður líka mun betri en þegar gaus í Eyjafjallajökli 2010, en þá var einungis hægt að senda tilkynningar á landlínunúmer og skráða síma.

„Við erum núna komin með þetta kerfi þar sem við getum sent skilaboð á mörgum tungumálum á alla síma sem eru á þeim svæðum sem tilheyra þessum farsímamöstrum. Þannig að allir þeir sem eru með símana sína opna eiga að fá skilaboð, hvort sem þeir eru frá Íslandi eða Kína,“ segir Sveinn Kristján, en margir ferðamenn eru nú á ferð um Suðurland allt árið um kring.

Almannavarnir funduðu með íbúum í Öræfum í maí vegna Öræfajökuls og sprungu sem myndast hefur í Svínafellsheiði, en ekki er hægt að útiloka að stórt berghlaup falli úr heiðinni niður á jökulinn.

Sveinn Kristján var ekki sjálfur á fundinum, en segir íbúa í Öræfasveit líkt og aðra sem búa á landsumbrotasvæðum vera meðvitaða um hættuna sem þeir taki þó af æðruleysi. „Þeir eru með varann á sér, en þetta er ekki að setja neinn á hliðina,“ segir hann. „Þeir eru meðvitaðir um hættuna í nágrenninu og fara yfir hlutina hjá sér og svo reynum við líka að hafa viðbragðið í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert