„Algjört virðingarleysi við konur“

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir á Austurvelli í dag.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir á Austurvelli í dag. mbl.is/Þór Steinarsson

„Mér finnst þetta algjört virðingarleysi við konur yfir höfuð. Þetta endar ekki vel ef þetta heldur svona áfram. Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir í samtali við mbl.is.

Hún var ein af þeim sem mættu á mótmæli á Austurvelli fyrr í dag þar sem nokkur hundruð manns komu saman til að vekja athygli á slæmri stöðu ljósmæðra. Töluverður hiti var á Austurvelli bæði í veðri og í fólki. Samstaðan var mikil þegar fólk kallaði í átt að Alþingishúsinu, sýndi ríkisstjórninni rauða spjaldið og bað hana um að vakna.

Hildur Sólveig starfar á fæðingarvakt Landspítalans en sagði upp störfum nýlega.

„Ég ætlaði mér ekki að segja upp. Mér finnst þetta mjög erfið ákvörðun en eins og samningaviðræður hafa gengið þá getur maður ekki látið bjóða sér þetta. Einhvern tímann fær maður nóg og ástandið fer síversnandi þannig að mér fannst ekkert annað í stöðunni,“ útskýrir Hildur.

„Það er okkar hlutverk að tryggja öryggi mæðra og barna og maður getur ekki alveg hugsað það til enda að það verði hægt að gera það ef þetta heldur svona áfram,“ bætir hún við.

Henni finnst ótrúlegt að ljósmæður séu í þeirri stöðu á 21. öldinni að þurfa að berjast með kjafti og klóm fyrir kjörum sínum. Hún bendir á að fyrir tíu árum hafi núverandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir biðlað til þáverandi ríkisstjórnar að leiðrétta kjör ljósmæðra en nú þegar hún er komin í ríkisstjórn virðist hún ekki vera á sömu skoðun.

Hún telur stuðninginn sem ljósmæður fengu í dag og hafa fengið undanfarið mjög mikilvægan í kjaradeilunni.

„Það gefur auga leið. Við erum kvennastétt og við höfum ekki getað náð góðum samningum einar og sér. Við þurfum þennan stuðning og við erum komnar hingað af því að þetta er kvennastétt. Ég held að það sé eina ástæðan,“ segir hún að lokum og bætir því við að hún kvíði fyrir að mæta til vinnu í nótt vegna ástandsins á Landspítalanum eftir fjölda uppsagna.

Mótmæli á Austurvelli.
Mótmæli á Austurvelli. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert