Hundruð mótmæla framferði ríkisstjórnar

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli.
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli. mbl.is/Eggert

Á níunda hundrað hafa boðað komu sína á Austurvöll í dag þar sem mótmæla á framferði ríkisstjórnarinnar í málefnum ljósmæðra. Þá hafa 3.500 aðrir áhuga á viðburðinum, sem nefnist Mótmæli: VAKNIÐ RÍKISSTJÓRN! og hefst klukkan 15 í dag.

Mótmælin munu standa yfir á meðan þingfundur fer fram á Alþingi en hann hefst klukkan 13:30. Yfirvinnubann ljósmæðra tekur gildi á miðnætti og er þjóðin uggandi yfir því ástandi sem skapast hefur á fæðingar- og meðgöngu- og sængurkvennadeild. Full ástæða er til þess að ætla að ástandið verði mun alvarlegra þegar yfirvinnubannið hefur tekið gildi.

Engin niðurstaða fékkst á síðasta fundi samninganefnda ríkis og ljósmæðra og er enginn fundur á dagskrá í vikunni. Næsti fundur fer fram hjá ríkissáttasemjara á mánudag.

Í lýsingu viðburðarins, sem haldinn er af samtökunum Jæja, á Facebook segir að ríkisstjórnin, auk um 400 annarra ríkisstarfsmanna, hafi þegið glórulausa launahækkun kjararáðs án nokkurra mótmæla nýverið, en tali nú gegn sjálfsögðum kröfum ljósmæðra.

„Ríkisstjórnin skal nú gera sér grein fyrir því að öll spjót standa að henni og að ábyrgðin er hennar ef eitthvað fer úrskeiðis á Landspítalanum - og ríkisstjórnin skal gera sér grein fyrir því að það er hennar að mæta kröfum ljósmæðra NÚNA STRAX!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert