Útkall vegna fólksbíls í Krossá

Myndin er af björgunaraðgerð í Krossá frá því í maí.
Myndin er af björgunaraðgerð í Krossá frá því í maí. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Útkall barst lögreglunni á Hvolsvelli og björgunarsveitum á Suðurlandi rétt eftir klukkan sex í kvöld um fólksbíl sem hefði farið ofan í Krossá. Bíllinn, sem var ekki útbúinn fyrir slíkar torfærur, komst ekki langt yfir ána áður en hann byrjaði að fljóta með straumnum. Tveir erlendir ferðamenn voru í bílnum og sluppu þeir við meiðsli, segir Atli Árdal Ólafsson, varðstjóri lögreglunnar á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is.

„Þeir voru á leiðinni yfir Krossá og ætluðu inn í Húsadal. Þeir fóru út í og voru komnir einn og hálfan metra út í ána þegar bíllinn fór af stað, flaut niður ána,“ útskýrir Atli.

„Þeir sluppu með skrekkinn en bíllinn er ekki betri eftir,“ bætir hann við.

Búið er að ná bílnum upp úr ánni.

Þá þurfti að kalla til sjúkraflutningamenn á knattspyrnuvöllinn á Hvolsvelli í kvöld eftir samstuð í knattspyrnuleik. Um var að ræða leik í yngri flokkum kvenna og lentu tvær stúlkur saman með þeim afleiðingum að hné annarrar þeirra fór úr lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert