Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Bandarískur karlmaður á sjötugsaldri var fyrir helgi dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og var sviptur ökuréttindum í 10 mánuði fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa orðið valdur að banaslysi á Suðurlandsvegi í maí á þessu ári.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi játað skýlaust að hafa gerst sekur um að hafa valdið slysinu. Hins vegar kom fram í farbannsúrskurði yfir manninum að hann hafi neitaðí skýrslutöku hjá lögreglu að hafa ekið bíl sínum á öfugan vegarhelming. Var niðurstaða bíltæknirannsóknar sú að orsök slyss­ins yrði ekki rak­in til ástands öku­tækj­anna, held­ur hafi niðurstaða rann­sókn­ar leitt í ljós að maður­inn hefði ekið bif­reið sinni inn á öf­ug­an veg­ar­helm­ing og í veg fyr­ir hina bif­reiðina með þeim af­leiðing­um að árekst­ur­inn varð.

Þá kom fram í úrskurðinum að framburður mannsins væri í veigamiklum atriðum í ósamræmi við önnur rannsóknargögn lögreglunnar.

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn hins vegar brot sitt samkvæmt ákæru. Þá kom einnig fram í dóminum að maðurinn hafi náð samkomulagi um greiðslu miskabóta og var því bótakrafa í málinu felld niður.

Taldi dómurinn tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vera hæfilega refsingu. Meðal annars var vísað til þess að atvikið hafi haft gríðarleg áhrif á heilsu mannsins. Það var staðfest með læknisvottorði.

Konan sem lést í slysinu lét eftir sig eiginmann, tvö börn og eitt barnabarn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert