Fengu undanþágu frá yfirvinnubanni

Ein undanþága var fengin frá yfirvinnubanni ljósmæðra strax í nótt, á fyrstu klukkustundum yfirvinnubannsins. Þetta segir Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir en hún var vaktstjóri á næturvaktinni.

Sex ljósmæður voru á vakt á Landspítala í nótt, venju samkvæmt, en þegar leið á nóttina var ein kölluð út til viðbótar. „Þetta hefði ekki mátt vera meira hjá okkur í nótt,“ segir Hildur. Hún segir starfsfólk verða að tryggja öryggi mæðra og barna og því hafi verið sótt um undanþágu frá yfirvinnubanninu, sem fékkst.

Þrjú börn fæddust á spítalanum fyrir klukkan átta í morgun, sem þykir hefðbundið en alla jafna fæðast þar um tíu börn á sólarhring.

Yfirvinnubann ljósmæðra tók gildi á miðnætti. Í því felst meðal annars að ljósmæður á Landspítala sinna ekki bakvöktum en jafnan er ein ljósmóðir á bakvakt á næturnar, til taks ef ef á þarf að halda.

Að sögn Hildar eru venjulega sex ljósmæður á næturvakt og bakvakt reglulega kölluð út. Þá komi raunar oft fyrir að hringt sé í ljósmæður sem hvorki eru í vinnu né á bakvakt. „Það þarf almennt að bæta mönnunina,“ segir Hildur og bætir við að það sé yfirleitt af góðmennsku ljósmæðra sem þetta gengur allt saman upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert