Fundur á morgun í kjaradeilu ljósmæðra

Mótmælt við húsnæði ríkissáttasemjara vegna ljósmæðradeilunnar. Boðað hefur verið til …
Mótmælt við húsnæði ríkissáttasemjara vegna ljósmæðradeilunnar. Boðað hefur verið til fundar í fyrramálið. mbl.is/Hari

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu ljósmæðra klukkan 10.30 í fyrramálið. Til stóð að fundur yrði næsta mánudag, en nú hefur verið boðað til fundar á morgun líkt og áður segir.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segir í samtali við mbl.is alltaf hafa legið fyrir að fundað yrði í síðasta lagi næsta mánudag. „Það lá alltaf fyrir ef eitthvað nýtt kæmi upp í stöðunni sem gæfi tilefni til, að þá væri boðað til fundar,“ segir hún.

Bryndís kveðst hafa ákveðið að boða til fundarins, m.a. í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin að mati bæði landlæknis og forstjóra Landspítala. „Núna tel ég nauðsynlegt að við komum saman til þess að ræða þá alvarlegu stöðu sem virðist vera uppi í deilunni og gera þá í leiðinni stöðumat hvort að það sé eitthvað nýtt.“

Hún segir ekkert nýtt hafa komið frá samningsaðilum enn þá. „En þegar deila er komin á þennan stað, þá er ég  alltaf að velta fyrir mér þeim úrræðum sem ég hef yfir að ráða.“ Bryndís kveðst enn fremur hafa verið í sambandi við deiluaðila og að ýmsir fletir hafi verið skoðaðir þó að ekki hafi verið haldinn formlegur fundur fyrr en nú. 

Spurð hvort að hún sé bjarsýn á að deilan leysist fljótlega segist hún vera hóflega bjartsýn. „Ég er alltaf hóflega bjartsýn og bind vonir við það að þessi deila eins og aðrar endi með samningi, einfaldlega af því að það er best fyrir alla hlutaðeigandi og ég held í þá von í lengstu lög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert