Gjaldtakan var forsenda útboðsins

Framkvæmdastjóri Kynnisferða segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins geta haft áhrif á afstöðu …
Framkvæmdastjóri Kynnisferða segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins geta haft áhrif á afstöðu fyrirtækisins til nærstæðanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þegar við tókum þátt í útboðinu fyrir ári síðan þá var ein forsenda útboðsins sú að hafin yrði gjaldtaka á þessu ytra stæði og við buðum náttúrulega í þetta miðað við þær forsendur,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdarstjóri Kynnisferða.

Samkeppniseftirlitið tók í gær bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia ohf. var gert að stöðva tímabundið gjaldtöku á ytri rútustæðum (fjarstæðum) við Leifsstöð.

Gjaldtaka Isavia hófst á fjarstæðunum í byrjun mars síðastliðnum en síðan þá hefur Isavia rukkað 12.900 krónur af hverri rútuferð sem er samkvæmt Isavia afsláttargjald af 19.900 krónum. Tvö rútufyrirtæki, Kynnisferðir og Hópbílar, hafa þó afnot af innri stæðum eftir að rétturinn um afnot á þeim var boðinn út á síðasta ári. Þá buðu Kynnisferðir rúmlega 40% af þeim tekjum sem fyrirtækið fær af ferðum sínum frá Leifsstöð fyrir notkun stæðanna.

Björn segir bráðabirgðaúrskurð Samkeppniseftirlitsins tvímælalaust hafa áhrif á afstöðu Kynnisferða til útboðsins en að vert sé að hafa í huga að úrskurðurinn er ekki endanlegur.

„Ef að niðurstaðan verður sú að það sé óheimilt að vera með gjaldtöku á ytri stæðinu þá breytir það í sjálfu sér forsendum þessa útboðs og myndi hafa einhver áhrif á það. Við eigum eftir að skoða betur með okkar lögmönnum hvernig Samkeppniseftirlitið ætli að taka á útboðinu sem slíku. Þetta hangir auðvitað allt saman.“

Þá segir Björn það vera möguleika að Kynnisferðir kæri gjaldtöku fyrir afnot stæðanna fari svo að óheimilt verði að innheimta gjald fyrir afnot af fjarstæðunum. „Þá munum við skoða það. Forsendur útboðsins verða auðvitað brostnar ef það verður niðurstaðan. Þá munum við endurskoða þetta og fara yfir það með Isavia hvort það þurfi að halda nýtt útboð eða hvað þurfi að gera í málinu. Forsendurnar fyrir því tilboði sem við gerðum eru auðvitað þær að þessi gjaldtaka yrði á ytra stæðinu.“

Björn segist ekki vera ósáttur með úrskurð Samkeppniseftirlitsins. „Það er allt í lagi að Samkeppniseftirlitið sé að taka á þessu. Eins og kemur fram er Isavia náttúrulega í einokunarstöðu þannig að ef það á að taka á þessu alla leið og horfa þá á heildarmyndina sem snýr að okkur líka hvað varðar þetta útboð og stöðu okkar þar þá erum við alls ekkert ósátt með að þau séu að láta sig þetta varða.“

Guðni Sigurðsson, starfandi upplýsingafulltrúi Isavia, segir að fyrirtækið sé nú að kanna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins nánar áður en frekari ákvarðanir varðandi gjaldtöku við Leifsstöð verði teknar. „Það er enn þá óljóst hvernig þetta fer og við þurfum að skoða þetta vel. Þetta er 70 blaðsíðna plagg sem við fengum í hendurnar og við erum að skoða þetta áður en við ákveðum næstu skref.“

Isavia tilkynnti í gær að gjaldtöku af stæðunum yrði strax hætt en að fyrirtækið væri ósammála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. „Við settum þetta gjald á eins og önnur gjöld fyrir þjónustu og aðstöðu í flugstöðinni. Keflavíkurflugvöllur er rekinn með notendagjöldum og framkvæmdir eru fjármagnaðar með þeim. Þannig að rekstrarformúlan fyrir flugvöllinn er svona. Auðvitað setjum við notendagjöld eins og við teljum að sé sanngjarnt og eðlilegt miðað við þá þjónustuaðstöðu sem er veitt,“ segir Guðni.

mbl.is