Hættuástand á Landspítalanum

Uppsagnir ljósmæðra hafa hingað til bitnað á meðgöngu- og sængurlegugangi. …
Uppsagnir ljósmæðra hafa hingað til bitnað á meðgöngu- og sængurlegugangi. Yfirvinnubannið mun bitna á öðrum deildum, m.a. fæðingargangi. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirvinnubann ljósmæðra hófst á miðnætti. Mikið ber í milli. Næsti fundur er boðaður á mánudag.

„Það er hættuástand á Landspítalanum og enn sem komið er hafa hlutirnir gengið upp með guðs hjálp, góðra manna, tilfærslum og mikilli vinnu,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og bætir við að þrátt fyrir fremur rólega tíð á fæðingardeildinni að undanförnu hafi róðurinn þar verið þungur fyrir. Nú sé hins vegar að færast aukinn þungi í starfsemina á sama tíma og yfirvinnubann ljósmæðra skellur á.

„Uppsagnir ljósmæðra hafa hingað til bitnað á meðgöngu- og sængurlegugangi. Yfirvinnubannið mun bitna á öðrum deildum, m.a. fæðingargangi. Með banninu verður erfiðara að leita til annarra sjúkrahúsa sem hafa þjónustað okkur, eins og sjúkrahúsanna á Akureyri og Akranesi, vegna álags þar,“ segir Páll.

„Við þurfum að óska eftir undanþágu fyrir yfirvinnu fyrir ljósmæður til þess að uppfylla lágmarksmönnun á deildum og sóttum við um undanþágu fyrir næturvakt og dagvakt í yfirvinnubanninu,“ segir Páll og bætir við að starfsfólk Landspítalans hafi unnið nótt sem nýtan dag til þess að bregðast við og afstýra hættuástandi.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

„Við erum ekki aðili að deilunni en það er mín skoðun að deiluaðilar verði að setjast niður og vinna dag og nótt þar til samkomulagi er náð. Það gengur ekki að deiluaðilar fundi á tveggja vikna fresti,“ segir forstjóri Landspítalans í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Ljósmæður gengnar upp að öxlum

„Við erum staðfastar í kröfum okkar og ef ekkert nýtt kemur fram verður ekki fundað fyrr en á mánudag í næstu viku. Ég upplifi sorg yfir því að störf okkar séu ekki metin að verðleikum. Ég hef miklar áhyggjur af öryggi mæðra og ungbarna og að ekki sé hægt að sinna þeim á fullnægjandi hátt,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra, og bætir við að ákveðin lágmarksmönnun þurfi að vera á deildum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari

Í verkfalli eða yfirvinnubanni séu alltaf gefnir út undanþágulistar. Undanþágunefnd fari yfir hvert og eitt tilfelli fyrir sig þannig að lágmarksmönnun sé tryggð til þess að tryggja öryggi mæðra og barna eins og kostur er.

„Það er verkefni undanþágunefndar að meta hvert tilfelli fyrir sig og það þarf að sækja um í hvert einasta skipti sem ljósmóðir er kölluð út til þess að vinna yfirvinnu,“ segir Katrín og bætir við að það sé spurning hversu margar ljósmæður sé hægt að kalla út því þær séu ansi fáar eftir. Þær ljósmæður sem staðið hafi vaktina frá því í byrjun júlí séu gengnar upp að öxlum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert