Heyrði fyrst af undanþágum í fjölmiðlum

Ljósmynd/Pexels

Beiðni Landspítalans um undanþágu frá yfirvinnubanni ljósmæðra fyrir næturvakt liðinnar nætur barst í nótt, eftir að vakt var hafin. Þetta staðfestir Unnur Berglind Friðriksdóttir, sem situr í undanþágunefnd sem afgreiðir slíkar beiðnir.

Hún segist fyrst hafa heyrt af beiðninni í fjölmiðlum, en í Morgunblaðinu í morgun var haft eftir Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, að spítalinn hefði sótt um undanþágu fyrir fyrstu næturvaktinni og dagvaktinni eftir að yfirvinnubannið tók gildi.

Undanþáguefndin er skipuð einum fulltrúa ljósmæðra, Unni Berglindi, og einum fulltrúa ríkisins, Ingibjörgu Hreiðarsdóttur yfirljósmóður. Tvímenningarnir hafa ekki hist frá því yfirvinnubannið tók gildi á miðnætti en munu funda síðar í dag.

Verkfallsbrot ef umsókn er hafnað

Ingibjörg segir verklag í verkfalli yfirleitt vera þannig að þegar brýn þörf er á aukamannskap að nóttu til sé gripið til þeirra aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar og umsókn þess efnis síðan tekin fyrir daginn eftir.

Þannig verður umsókn Landspítala um undanþágu frá næturvaktinni meðal annars tekin fyrir á fundi nefndarinnar í dag. Spurð hvort það hefði einhverja þýðingu að hafna umsókn um undanþágu þegar vaktinni er lokið segir Ingibjörg að ef umsókn er hafnað flokkist það sem verkfallsbrot.

Sex ljósmæður vinna á næturvöktum Landspítalans og venjulega er ein til viðbótar á bakvakt, til taks ef á þarf að halda. Vegna verkfallsins sinnir enginn bakvakt en líkt og mbl.is greindi frá í morgun var undanþága gerð frá yfirvinnubanninu strax í nótt, þegar aukaljósmóðir var kölluð til.

„Það þarf að vera ákveðin lágmarksmönnun út frá neyðarlistum,“ segir Unnur. Nefndinni sé því ekki stætt að hafna slíkum umsóknum.

Auk umsóknar Landspítalans hefur nefndinni þegar borist umsókn frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi um undanþágu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert