Hvergi betra að vera kona en á Íslandi

Janice Petersen, þáttastjórnandi Dateline, fór fögrum orðum um íslenska jafnréttisstefnu.
Janice Petersen, þáttastjórnandi Dateline, fór fögrum orðum um íslenska jafnréttisstefnu. Ljósmynd/Skjáskot, Dateline

Ástralski sjónvarpsþátturinn Dateline gerði Ísland að viðfangsefni sínu á dögunum þar sem fjallað var ítarlega um jafnrétti kynjanna. Þáttastjórnandinn, Janice Petersen, fer í þættinum um Ísland, kynnir sér stefnur og strauma í jafnréttismálum og mærir landið í hástert fyrir öfluga jafnréttisstefnu. Hún segir Ísland vera femíníska útópíu og hvergi sé betra í heiminum að vera kona en á Íslandi. 

Petersen tók viðtöl við Íslendinga og spurði þá hver lykillinn væri að því hve framarlega Ísland stendur í jafnréttismálum. Hún ræddi við Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, prófessor og fyrrverandi þingkonu Kvennalistans, sem minntist m.a. kvennafrídagsins 24. október 1975 þegar konur lögðu niður störf. 

Petersen komst að því að saga leiðtogakvenna í stjórnmálum og smæð þjóðarinnar eiga sinn þátt í að örva þjóðina til þess að fylkjast að baki sterkustu jafnréttisstefnu í heiminum. Það sé jákvætt bæði fyrir konur og karla.

Brjóta niður staðalímyndir

Eins var rætt við Margréti Pálu Ólafsdóttur, skólastjóra Hjallastefnunnar, um nýstárlegar leikskólaaðferðir sem miða að kynjajafnrétti. Sýnt var frá hefðbundnum leikskólastörfum þar sem stúlkur léku sér í mold og negldu í spýtur en drengir æfðu sig í að mynda vinskap með handaböndum og fengu að setja á sig naglalakk, í þeim tilgangi að greiða úr staðalímyndum kynjanna. 

„Við erum að æfa nánd. Að vera náin, vera vinir og snerta hvort annað. Að finna tilfinningar,“ segir Margrét Pála í viðtalinu. 

Petersen fær að kynnast íslenskri fjölskyldu eins drengjanna á leikskóla Hjallastefnunnar, þar sem fjölskyldufaðirinn er heimavinnandi og í fæðingarorlofi með yngra barnið. Foreldrarnir segjast bæði ánægð með aðferðir Hjallastefnunnar. „Það er gott að börnum sé kennd meiri blíða og tilfinninganæmni,“ segja þau.

Í þættinum er jafnframt fjallað um góðar aðstæður nýbakaðra foreldra á Íslandi og sagt frá því að fæðingarorlof hér á landi sé með því hæsta sem gerist í heiminum. Eins er rætt við Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda, um lög um jafnlaunavottun. Petersen er tíðrætt um að á Íslandi sé aðeins 5% launahalli milli kynja á meðan í Ástralíu sé launamunur kynjanna 15-20%.

Þáttinn má sjá í heild sinni hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert