Krefst svara frá forsætisnefnd vegna aðkomu Kjærsgaard

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, ætlar að kalla eftir svörum …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, ætlar að kalla eftir svörum frá forsætisnefnd Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir harðlega ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, þess efnis að bjóða Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til hátíðarfundar á Þingvöllum. Þá gagnrýnir hann einnig að ekki hafi verið upplýst um aðkomu Kjærsgaard fyrr en í gær þrátt fyrir að henni hafi verið boðið til landsins í apríl. Hann ætlar að kalla eftir skýrum svörum frá forsætisnefnd Alþingis vegna málsins. 

Áttaði sig ekki á því hver hún væri

Jón Þór var á fundi forsætisnefndar Alþingis í gær þar sem tilkynnt var um komu Kjærsgaard en gerði ekki athugasemd frekar en aðrir. Hann segist ekki hafa áttað sig á því hver hún væri. Þá gagnrýnir hann að forsætisnefnd hafi ekki verið upplýst um málið fyrr en degi fyrir hátíðarfundinn og að þá hafi Kjærsgaard verið komin til landsins.

„Ég hafði svo sem ekki hugmynd hver þessi kona var og gat ekki gert mér hugarlund að forseti Alþingis myndi bjóða manneskju sem er með svona sundrandi stjórnmál á hátíðarfund. Ég hafði ekki hugarflug í að láta mér detta slíkt í hug,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Hann segist þó hafa gert athugasemdir við lögmæti þess að erlendur fulltrúi ávarpi Alþingi enda segi lög um þingsköp að einungis ráðherrar og þingmenn megi ávarpa Alþingi.

Hefur legið í loftinu lengi

Steingrímur segir sjálfur að koma Kjærsgaard hafi legið fyrir lengi og að ákvörðun Pírata að sniðganga hátíðarhöldin í dag hafi komið honum í opna skjöldu. 

Jón Þór kannast ekki við að hafa heyrt af komu Kjærsgaard fyrr en í gær og leitaði því í fundargerðum forsætisnefndar en fann ekkert um aðkomu forseta danska þingsins.

„Ég finn þetta ekki í neinum fundargerðum. Hvorki þeim sem ég hef fengið sent frá Alþingi né þeim sem ég safna saman og skanna inn. Ég er líka með mína eigin fundargerð sem ég skrifa á fundum og þetta er hvergi til staðar nema í gær,“ segir Jón Þór.

Steingrímur sagði í samtali við mbl.is að ekki væri víst að aðkoma Kjærgaard hafi verið bókuð í fundargerð en telur það hafa komið fram í gögnum fyrir undirbúninginn að fundinum og segir það einnig hafa komið fram á vef Alþingis.

Svo mikið er víst að það hefur verið gert,“ segir Steingrímur.

Jón Þór segir það mögulegt að aðkoma Kjærgaard hafi komið fram í undirbúningsgögnum en telur þá að hann hefði átt að fá þau gögn afhent.

Steingrímur átti að vita betur

Varðandi þá útskýringu Steingríms að Kjærgaard hafi ekki verið boðin hingað til lands vegna stjórnmálaskoðana sinna heldur í krafti embættis forseta danska þingsins segir Jón Þór það vissulega málefnalegan punkt og að Píratar hafi velt því fyrir sér.

„Það er alveg málefnalegur punktur og við hugsuðum um það þegar við heyrðum þá framsetningu. Málið er bara að þetta er hátíðarfundur Íslands. Mér finnst alveg ótækt að vera að bjóða manneskju, fyrsta erlenda kjörna fulltrúanum til að ávarpa Alþingi Íslendinga, á svona stundu sem stundar svona sundrandi pólitík. Það hefði alveg verið hægt að sleppa því,“ segir Jón Þór.

„Það hefði bara gert þessi hátíðarhöld veglegri ef við hefðum ekki verið með svona manneskju með þessa pólitík eins og við höfum séð. Auðvitað mótmælir fólk þessu. Það hefði Steingrímur átt að vita,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert