Leituðu til sendiráðsins vegna áreitis

Ann­ar bíl­anna fast­ur í aur­bleytu utan veg­ar í grennd við …
Ann­ar bíl­anna fast­ur í aur­bleytu utan veg­ar í grennd við fjallið Loðmund á sunnudag. Ljósmynd/Páll Gíslason

„Þau eru búin að vera að lenda í alls konar skítkasti á víð og dreif um landið. Fólk að segja þeim að koma sér heim og að þau séu búin að eyðileggja náttúruna og að gefa þeim „fokk-merki,“ segir Magnús Ásgeirsson um frönsku ferðamennina tvo sem gerðust sekir um utanvegaakstur við Kerlingarfjöll síðasta sunnudag.

Magnús og franska parið eiga sameiginlegan vin í Frakklandi sem hringdi í Magnús á sunnudag til að vita hvort að hann gæti ekki fengið einhverjar upplýsingar um hvað væri að gerast, þau hafi einfaldlega ekki vitað hvað væri á seyði.

Bílinn sem ferðamennirnir voru á var merktur erlendri ferðaskrifstofu sem hefur svo að sögn Magnúsar verið að fá illskeytta haturspósta frá Íslendingum á síðustu dögum þó að ferðaskrifstofan hafi í raun ekkert með ferð parsins um Ísland að gera. Parið hafi einfaldlega fengið límmiða á bílinn sinn frá skrifstofunni eftir ferðalag í Afríku fyrir mörgum árum. 

Magnús segir það vera leiðinlegt hvað fólk hafi verið dónalegt og samúðarlaust við parið og að þeirra hlið sögunnar hafi aldrei komið fram í fjölmiðlum.

„Þau sögðu að þeim þætti ofboðslega mikið fyrir þessu og að þau hafi borgað 400.000 króna sekt og vildu í rauninni bara láta þetta kyrrt liggja og fá að klára ferðina sína í friði. Ég hef enga samúð með þessum utanvegaakstri en þetta er óþarfi. Sömuleiðis með manninn uppi í Kerlingarfjöllum sem vildi ekki hjálpa þeim. Tók bara myndir og fór. Þetta eru ekki mannasiðir.“

Parið gaf í dag út yfirlýsingu í samráði við franska sendiráðið þar sem þau segja frá sinni hlið málsins. „Þau hafa orðið fyrir svo miklu áreiti að þau hringdu í franska sendiráðið í gær og báðu þau um að aðstoða sig.“ Sendiráðið þýddi svo yfirlýsinguna áður en parið sendi hana á fjölmiðla.

Parið sagði að skiltið sem bannaði akstur hafi verið fært …
Parið sagði að skiltið sem bannaði akstur hafi verið fært til eftir að þau hafi fest sig og ekki verið sýnilegt fram að því. mbl.is/RAX

Yfirlýsingu parsins má lesa hér að neðan:

„Í framhaldi af grein sem birtist 16. júlí 2018 og varðaði franska ferðamenn og utanvegaakstur viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Við lögðum af stað frá skálanum í Kerlingarfjöllum, þar sem við sváfum um nóttina. Við ókum slóða í átt að Háafossi. Eftir átta kílómetra akstur varð snjóskafl fyrir okkur og bíllinn komst ekki lengra. Til vinstri voru hjólför sem bentu til að hægt væri að sneiða fyrir skaflinn. Við festum okkur og fólk í hinum bílnum reyndi að losa okkur en árangurslaust. Við afréðum þá að kalla eftir hjálp í skálanum í Kerlingarfjöllum. Starfsmaður þaðan kom á vettvang. Hann tók myndir og fór síðan til að gera lögreglu og hjálparsveitum viðvart. Þegar hann kom í skálann færði hann skilti sem á stóð að innakstur væri bannaður og setti það á veginn miðjan. Annar bíll hafði þá þegar lagt inn á slóðann. Skiltið var ekki nógu vel staðsett til að hægt væri að sjá það.

Hjálparstarfsmaður og lögreglumaður komu á vettvang um kvöldið til að aðstoða okkur. Lögreglurannsókn hefur farið fram. Við fylltum upp í hjólförin eftir bílana og gistum aftur í skálanum í Kerlingarfjöllum um nóttina. Næsta dag fórum við á lögreglustöðina á Selfossi og greiddum þar 400.000 kr. sekt.

Umsjónarmaðurinn í skálanum lét birta í blöðum og á Facebook-síðu skálans skammir um félagsskapinn „Imagine.com“ því við vorum með límmiða þaðan á bílunum. Þessi félagsskapur hefur síðan legið undir ámæli og svívirðingum en hann er ekki á Íslandi og hefur aldrei til landsins komið. Auk þessa höfum við sætt margvíslegum skömmum af hálfu ýmissa landsmanna.

Okkur þykir mjög miður að hafa krækt fyrir skaflinn í stað þess að að gera það sem skynsamlegast hefði verið og snúa við. Við skiljum að Íslendingum sé annt um náttúru landsins, sem er svo fögur og viðkvæm. Og þið megið vita að þar sem við förum sýnum við náttúrunni fulla virðingu (notum ruslapoka, flokkum sorpið, háttum þar sem það er heimilað...). Ef vegarskiltið hefði verið sýnilegra hefðum við ekki lagt á slóðann. Hefði því verið betur fyrir komið hefði heldur ekki þurft að færa það til eftir á.

Lögreglan sagði okkur að það hefði verið óvenjukalt og þiðnað seint þetta árið. Annars væri slóðinn venjulega fær. Af hverju voru ekki settir grjóthnullungar á enda slóðans, eins og við höfum séð annars staðar á landinu?

Okkur langar að halda ferðinni á Íslandi áfram, í friði og ró, án þess að verða fyrir aðkasti landsmanna. Ykkur alla Íslendinga biðjum við einlæglega afsökunar. Þetta axarskaft, sem við gerðum, skynjið þið sem níðingsverk á náttúrunni og við hörmum það innilega.“

M. og D.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert