„Mikill álagstoppur hjá okkur núna“

Mikið álag er nú á fæðingardeild Landspítalans, en yfirvinnubann ljósmæðra …
Mikið álag er nú á fæðingardeild Landspítalans, en yfirvinnubann ljósmæðra hófst á miðnætti. Rax / Ragnar Axelsson

„Það hefur þegar reynt á bæði undanþágulista og undanþágubeiðnir,“ segir Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans, en yfirvinnubann ljósmæðra hófst á miðnætti í nótt. Hún segir mikinn álagstopp nú vera í fæðingarþjónustunni og enn berast uppsagnir ljósmæðra.

„Við höfum þurft að láta reyna á undanþágubeiðnir í nótt og svo aftur nú í morgun,“ segir Linda. Undanþága fékkst fyrir eina ljósmóður í nótt á fæðingarvaktina. „Svo var óskað eftir undanþágu fyrir eina ljósmóður á meðgöngu- og sængurlegudeildinni strax í morgun. Það er mikill álagstoppur hjá okkur núna,“ bætir hún við.

Um miðjan dag í gær höfðu þegar fæðst níu börn á Landspítalanum og nú rétt fyrir hádegi voru sjö börn búin að koma í heiminn það sem af er degi. Mikið er því að gera á fæðingadeildinni og segir Linda um eina keðju fæðingarvaktar- og meðgöngu- og sængurlegudeildar að ræða. „Álag á einni veldur álagi á annarri, þannig að það er bara mikið að gera í fæðingaþjónustunni.“

Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítala.
Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Getur ekki gengið ekki endalaust

Spurð hvort gripið hafi verið til fleiri aðgerða en undanþágubeiðnanna frá því að yfirvinnubann hófst segir hún svo ekki vera. „Við fylgjum hins vegar áfram neyðaráætluninni sem tók gildi 1. júlí eins og við höfum gert fram að þessu. Hún gengur út á að útskrifa konur fyrr og á aðrar heilbrigðisstofnanir. Þannig að við höfum áfram notað öll þau úrræði og erum enn að. Síðan höfum við líka fengið hjálp frá öðrum deildum hér á sviðinu,“ segir Linda og kveður þær aðstoða eftir því sem hægt er.

Uppsagnir 12 ljósmæðra tóku gildi um síðustu mánaðamót og fleiri uppsagnir hafa borist spítalanum undanfarnar vikur, m.a. sögðu tvær ljósmæður upp störfum síðasta föstudag. Linda segist hafa verulegar áhyggjur af stöðunni.

„Við gerum okkar besta til að reyna að láta þetta ganga, en þetta getur ekki gengið svona endalaust,“ segir hún. „Við erum ýmsu vön og kunnum vel að bregðast við neyðaraðstæðum en þetta getur ekki gengið svona dag eftir dag. Það eru skýr skilaboð frá okkur og sem Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans hefur líka gefið frá sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert