Mótmæli lituðu hátíðarfundinn

Tvær konur stóðu varðstöðu með stóra hvíta fána. Önnur þeirra …
Tvær konur stóðu varðstöðu með stóra hvíta fána. Önnur þeirra sagði gjörninginn vera samstöðu með fórnarlömbum herskárrar þjóðernishyggju. mbl.is/​Hari

Mótmæli bæði áhorfenda og þingmanna settu svip sinn á hátíðarfund Alþingis, sem fram fór undir Lögbergi á Þingvöllum í dag. Tilefni fundarins var að í dag eru 100 ár liðin frá undirritun sambandssamnings um fullveldi Íslands, sem tók svo gildi 1. desember 1918.

Mæting almennings á fundinn var mun dræmari en búist hafði verið við, en lögregla og Vegagerðin höfðu gert sérstakar ráðstafanir til þess að stýra umferð inn í þjóðgarðinn. Jafnvel var búist við nokkrum þúsundum gesta, en almennir gestir sem mættu voru samkvæmt ágiskun blaðamanns á milli 350 og 400 talsins og hluti þeirra erlendir ferðamenn.

Mætingin á hátíðarfund Alþingis var mun dræmari en búist hafði …
Mætingin á hátíðarfund Alþingis var mun dræmari en búist hafði verið við. mbl.is/​Hari

Einnig hafði verið búist við 63 þingmönnum, en einungis 57 mættu, þar sem þingflokkur Pírata ákvað í heild sinni að sniðganga hátíðarfundinn til að mótmæla því að Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, fengi að halda þar ávarp.

Ríkisútvarpið sýndi beint frá fundinum og var útsendingin vegleg, fjöldi myndavéla á svæðinu og flygildi sömuleiðis notað til að skila fundinum í sjónvarpstæki landsmanna.

Þingmennirnir 57 sem mættu til hátíðarfundarins á Þingvöllum í dag.
Þingmennirnir 57 sem mættu til hátíðarfundarins á Þingvöllum í dag. mbl.is/​Hari

Þingmenn og boðsgestir fundarins komu í lögreglufylgd frá Reykjavík á fimm rútum og var hópnum smalað út við þjónustumiðstöðina ofan Almannagjár. Boðsgestum var svo fylgt í hópum ofan í Almannagjá og að Lögbergi, þar sem þingfundur var haldinn á sérútbúnum yfirbyggðum palli.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veifar til fundargesta.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veifar til fundargesta. mbl.is/​Hari

Sírenuvæl og frammíköll í upphafi fundar

Mótmælendur mættu boðsgestum við Lögberg. Þar var maður sem bar skilti með áletruninni „Steingrímur skammastu þín“ og tvær konur stóðu varðstöðu með stóra hvíta fána. Aðspurð sagði önnur þeirra blaðamanni að þær væru með gjörningnum að standa með fórnarlömbum herskárrar þjóðernishyggju.

Er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafði lýst þingfund settan og var byrjaður að flytja ávarp sitt, heyrðist skyndilega sírenuvæl frá áhorfendasvæðinu. Þetta sírenuvæl kom úr gjallarhorni mótmælanda sem var staddur uppi á klettunum ofan Almannagjár. Það tók lögreglu nokkuð langan tíma að ná til mannsins og náði hann að trufla ávörp Steingríms J. Sigfússonar, Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar með sírenuvæli og frammíköllum.

Þessi maður lét sírenuvæl glymja úr gjallarhorni sínu úr klettinum …
Þessi maður lét sírenuvæl glymja úr gjallarhorni sínu úr klettinum ofan við Almannagjá. Nokkurn tíma tók fyrir lögreglu að komast að honum. mbl.is/​Hari

Lítið heyrðist hvað maðurinn sagði í gjallarhorn sitt, en þó mátti greina að hann talaði um kjaradeilu ljósmæðra og að Alþingismenn ættu að skammast sín.

Eftir það má segja að fundurinn hafi gengið samkvæmt dagskránni, fyrir utan hvað Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingar, gekk af þingpallinum er Kjærsgaard steig í pontu.

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid ásamt Piu Kjærsgaard, …
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid ásamt Piu Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins. mbl.is/​Hari

Er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði flutt ávarp sitt og frestað fundum Alþingis, hélt öll hersingin, þingmenn og boðsgestir, aftur upp Almannagjá, sem lokuð var almenningi í dag. Að lokum var blásið til léttrar veislu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert