Munu spara ríkinu tvo milljarða

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlaður ávinningur af útboði ríkisins á tölvubúnaði er rúmlega hundrað milljónir króna árlega. Þá nemur sparnaður vegna hugbúnaðarleyfa og afsláttasamninga hundruðum milljóna árlega eftir því sem fram kemur í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar sem birt var á vef Alþingis í gær.

Ávinningurinn er af breyttum áherslum í opinberum innkaupum sem kynntar voru í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í október 2016 í kjölfar setningar nýrra laga um opinber innkaup. Samkvæmt þeim eiga innkaup ríkisins að verða markvissari með sameiginlegum innkaupum, örútboðum og fækkun birgja.

Mat Ríkiskaupa er að þessar breytingar muni skila yfir tveimur milljörðum króna í heildarávinningi á líftíma rammasamninga.

Í svari ráðherra kemur einnig fram að áætlaður ávinningur ríkisins af stökum samningi við Microsoft vegna hugbúnaðarleyfa er um tvö hundruð milljónir króna árlega. Jafnframt hefur örútboð á sameiginlegum innkaupum grunnskóla á ritföngum skilað verði 64,2% undir kostnaðaráætlun.

Þá hefur einnig verið áætlað að afsláttasamningur sem gerður var fyrir flugfarmiða fyrir stofnanir ríkisins, muni skila heildarávinningi sem nemi rúmlega 100 milljónum króna.

Svar ráðherra má lesa í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert