Samfelld rigning

Það mun rigna á sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld.
Það mun rigna á sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Í kvöld mun byrja að rigna nokkuð samfellt um sunnan- og vestanvert landið. Hann mun hanga þurr norðaustan til að sögn veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Búið var að vara við því að blíðan á suðvesturhorni landsins myndi ekki endast lengi og nú ljóst að sú spá er að ganga eftir.

Veðurfræðingurinn útskýrir veðrið í dag og á morgun með þessum hætti á vef Veðurstofunnar.

„Um 500 km V af Reykjanesi er 1.004 mb lægð en hún er á hægri leið austur og sökum hennar þykknar meira upp um sunnan- og vestanvert landið með deginum og má búast við dálítilli rigningu eða súld með sjávarsíðunni síðdegis, annars verður skýjað og þurrt. Þurrt og bjart verður norðan og austan til í dag en loftið er nokkuð óstöðugt og því er útlit fyrir stöku síðdegisskúrum á Austurlandi og norðanverðum Austfjörðum. 

Í kvöld verða samskilin frá lægðinni komin að landinu og byrjar þá að rigna nokkuð samfellt sunnan- og vestanlands en hann hangir þurr norðaustan til. Styttir upp á morgun með deginum þegar lægðin er fer fram hjá landinu, en aftur er útlit fyrir síðdegisskúrir norðaustan til á morgun. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi í dag en á Suðurlandi á morgun.“

Veðurvefur mbl.is

Svona eru veðurhorfurnar næstu daga:

Á fimmtudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og lítils háttar rigning um landið sunnan- og vestanvert en þar rofar til með deginum. Skýjað með köflum norðaustanlands en stöku skúrir þar síðdegis. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast á Suðurlandi. 

Á föstudag:
Suðvestan 5-13 og rigning, en þurrt um landið austanvert fram eftir degi. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á laugardag:
Hæg vestlæg átt en strekkingur með suðurströndinni. Skýjað og dálítil rigning eða skúrir, en þurrt suðaustan til. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast suðaustanlands. 

Á sunnudag:
Vestlæg átt, 3-10, en norðlægari norðanlands. Víða dálítil væta en þurrt suðaustan til. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag og þriðjudag:
Austlæg eða breytileg átt og rigning eða súld með köflum. Hiti 8 til 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert