Umdeilda áhrifakonan á Þingvöllum

Pia Kjærsgaard er forseti danska þingsins.
Pia Kjærsgaard er forseti danska þingsins. Ljósmynd/Twitter

Þegar Pia Kjærsgaard hætti sem formaður Danska þjóðarflokksins í september árið 2012, flokksins sem hún hafði stofnað og leitt allt frá árinu 1995, urðu áhrif hennar á stjórnmál víðar en í heimalandinu ljós. Hörð stefna hennar og flokksins í innflytjendamálum hafði farið öfugt ofan í marga Dani en sýn hennar á málaflokkinn var fagnað af þeim sem voru í forystu sambærilegra afla í Evrópu. „Vegna Piu og áhrifa hennar í dönskum stjórnmálum hafa Danir orðið stoltir og sjálfsörugg þjóð sem hefur barist fyrir frelsi gegn íslamsvæðingu og tilskipunum frá Brussel,“ sagði Geert Wilders, formaður hollenska Frelsisflokksins, við Ritzau-fréttastofuna á þessum tíma. „Pia Kjærsgaard hefur verið innblástur fyrir marga pólitíska samherja í öðrum löndum.“

Frelsisflokkurinn hefur það yfirlýsta markmið að berjast gegn því að fólk utan Vesturlanda fái að setjast að í Hollandi. Hann, líkt og Kjærsgaard, hefur verið gagnrýninn á íslam og fjölmenningarstefnuna. Vegna skoðana sinna þurfti Wilders um tíma lögregluvernd allan sólarhringinn. Flokkurinn hefur notið vaxandi fylgis og í fyrra fékk hann tuttugu sæti í fulltrúadeild hollenska þingsins og var orðinn næststærsti flokkurinn þar. Fyrir fram höfðu aðrir flokkar sem buðu fram tilkynnt að þeir myndu ekki mynda stjórn með flokki hans.

Gagnrýna komuna

Koma Kjærsgaard til Íslands í boði Alþingis í tengslum við aldarafmæli fullveldisins, hefur vakið ýmis viðbrögð. Þannig greinir Kjarninn frá því að Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hafi sent Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis bréf þar sem hann mótmælir komu hennar og ræðuhöldum á hátíðarfundinum á Alþingi í dag, og óskar eftir upplýsingum um hvernig ákvörðunin um val Kjærsgaard fór fram. Þórunn Ólafsdóttir, sem þekkt er fyrir mannréttindabaráttu sína, skrifar á Facebook að með því að gera hana að hátíðarræðumanni sé verið að normalísera viðhorf „sem áttu aldrei aftur að eiga sér hljómgrunn“. Þá skrifar Þórunn: „[...] hún hefur í alvörunni helgað líf sitt baráttunni gegn fjölbreytileikanum og hennar sterkasta vopn er óttinn sem henni og hennar samflokksfólki hefur tekist að planta svo víða.“

Áhrifaflokkur í dönskum stjórnmálum

Danski þjóðarflokkurinn, sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að verja frelsi og menningararfleifð Danmerkur, hefur ekki verið útskúfaður með sama hætti og hollenski Frelsisflokkurinn heldur margsinnis komið að stjórn landsins og á nú sæti í þriggja flokka ríkisstjórn. Enda hafa forsvarsmenn hans gætt þess að halla sér ekki um of í átt að öfgahreyfingum, líkt og Susi Meret, aðstoðarprófessor við Álaborgarháskóla, bendir á í viðtali í Kaupmannahafnarpóstinum. „Þetta var stefna sem flokkurinn tók áður en hann fór í stjórn því hann varð að njóta stuðnings á þinginu. Margir þeir sem höfðu tengsl við öfgahreyfingar var hent út [úr flokknum] er það komst í hámæli.“

Og nú er Kjærsgaard forseti danska þingsins. Hún hefur ítrekað komist í fréttir fyrir ummæli sín um útlendinga m.a. lét hún þau orð falla í fréttabréfi flokksins árið 2001 að múslimar væru fólk sem „lygi, svindlaði og blekkti“. Var hún kærð fyrir þessi ummæli en saksóknari lét málið niður falla.

Árið 2008 sagði hún á ársfundi Þjóðarflokksins: „Í mínum augum eiga útlendingar hvorki kröfu til eins eða neins! En Danir eiga hins vegar kröfu á sjálfsákvörðunarrétti!“ Þá sagði hún um svipað leyti að það væri hræðilegt að fólk gæti klæðst hefðbundnum fatnaði múslima í þingsal.

Í fyrra, svo dæmi sé tekið, setti flokkurinn svo fram þá hugmynd að setja upp gaddavírsgirðingar á landamærunum að Þýskalandi.

Þekktust eru þó líklega þau ummæli hennar að útlendingar fjölguðu sér eins og kanínur sem  hún lét falla á fundi í Óðinsvéum og greint var frá í Politiken árið 1994.

Kjærsgaard leiddi Danska þjóðarflokkinn í sautján ár en stjórnmálaferill hennar spannar fjóra áratugi:

Árið 1978 gekk hún til liðs við Framfaraflokkinn og árið eftir var hún komin á þing. Árið 1985 var hún orðin formaður flokksins og var það allt til ársins 1994. Í kjölfar átaka innan flokksins stofnaði hún Danska þjóðarflokkinn árið 1995 ásamt Kristian Thulesen Dahl, Ole Donner og Poul Nødgaard. Ári síðar var hún valin formaður flokksins á fyrsta ársfundi hans. Á árunum 2001-2011 varði flokkurinn minnihlutastjórn í landinu falli en eftir ósigur í kosningunum árið 2011 stóð hann utan við stjórnina en vann þó náið með stjórnarflokkum að ýmsum málum.

Árið 2012 hætti Kjærsgaard svo sem formaður flokksins en tók við nýrri stöðu innan hans og hefur hún því enn mikil áhrif á útlendingastefnu hans, skóla- og menningarmál og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert