Upphafleg áætlun miðaðist við aldamót

Hundrað ára fullveldi Íslands verður fagnað á Þingvöllum í dag.
Hundrað ára fullveldi Íslands verður fagnað á Þingvöllum í dag. mbl.is/Hari

Aukinn kostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í dag skýrist af því að upphafleg kostnaðaráætlun miðaði við kostnað af síðasta hátíðarfundi á Þingvöllum sem haldinn var árið 2000. Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is. Hann bendir á að auknar kröfur séu nú gerðar til gæða sjónvarpsútsendinga miðað við fyrir 18 árum. 

Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að kostnaður við hátíðarþingfundinn sé nú áætlaður um 70 til 80 milljónir króna en upphaflega var gert frá því að kostnaður fundarins næmi um 45 milljónum króna. 

Helgi segir að í kostnaðaráætlun hafi verið gert ráð fyrir að útsendingin yrði með sama sniði og var í sjónvarpsútsendingunni árið 2000. „Við gerðum auðvitað ráð fyrir því í okkar áætlunum að þessi fundur yrði með áþekku sniði og var árið 2000, og okkar áætlanir miðuðust í sjálfu sér við það. Þetta átti að vera nákvæmlega sama fyrirbærið,“ segir Helgi.

„Hins vegar var lögð mikil áhersla á það nú að hægt væri að bjóða þjóðinni að hlusta á þetta allt saman og fylgjast með án þess að þurfa að gera sér ferð á Þingvelli,“ segir Helgi og bætir við að því hafi þurft að stækka umgjörðina á svæðinu til þess að koma sjónvarpsvélum þar fyrir. 

Meiri kröfur gerðar nú en um aldamót

„Við erum einnig með himin yfir þingpallinum, m.a. til þess að tryggja lýsingu og annað slíkt og það er allt saman auðvitað dýrt. En það er í þágu útsendingarinnar og til þess fallið að gera þetta aðgengilegra fyrir landsmenn. Það hefur bara ákaflega margt breyst í tækninni síðan árið 2000, á 18 árum,“ segir Helgi og bendir á að við hátíðarfundinn árið 2000 hafi engar sérstakar ráðstafanir verið gerðar fyrir sjónvarpsútsendingu á Þingvöllum. 

„Nú eru gerðar mun meiri kröfur og öllu stillt upp þannig að það fari vel í sjónvarpi. Varðandi lýsingu og slíkt,“ segir Helgi.

Um 50 erlendir boðsgestir verða viðstaddir hátíðarfundinn, þ.á m. fulltrúar Norðurlandaþjóða, fulltrúar Norðurlandaráðsins og Vestnorræna ráðsins. Auk þess verða sérstakir boðsgestir Alþingis viðstaddir en það eru að þessu sinni ráðuneytisstjórar, sendiherrar, aðrir embættismenn, fyrrverandi forsetar Alþingis og aðrir trúnaðarmenn þingsins auk maka þingmanna. 

Einnig er athygli vakin á því að fundurinn verður opinn almenningi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert