Frekari ráðstafanir dragist deilan lengur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Forstjóri Landspítalans segir ástandið á spítalanum hafa versnað hraðar en búist hefði verið við og að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, að loka meðgöngu- og sængurkvennadeild og hætta með 12 vikna sónar, muni ekki duga lengi.

„Það er vaxandi þreyta hjá okkar starfsfólki. Með yfirvinnuverkfallinu er stuðningur annarra stofnana, sem hefur verið ómetanlegur, nú minni af því þær eru einnig í vanda,“ segir Páll Matthíasson.

„Við sjáum einfaldlega ekki annað í stöðunni en að loka meðgöngu- og sængurkvennadeild, eða réttara sagt færa þjónustuna af þeirri deild og niður á kvenlækningadeildina. Það þýðir að þær konur sem þar eru verða að fara annað á spítalann að verulegu leyti, sem ekki er auðvelt í sumarlokunum.“

Páll segir að þrátt fyrir að 12 vikna ómskoðun sé valkvæð sé hún mikilvægur hlekkur í öryggi og að flestar konur kjósi að nýta sér þjónustuna. Hún verður ekki boði frá og með mánudegi, en 20 vikna sónar verður enn til staðar.

„Það er alveg ljóst að það verður að leysa þessa deilu strax og á þann hátt að ljósmæður snúi aftur til starfa. Við þekkjum frá fyrri deilum að ákveðinn hluti þeirra sem sagt hefur upp skilar sér ekki til baka.“

Spítalinn telur öryggi mæðra og barna best tryggt með þessum breytingum, sem munu að öllum líkindum gilda þar til lausn hefur fundist á kjaradeilu ljósmæðra. Páll segir þó að þessi viðbrögð muni líklega ekki duga lengi og að það þurfi að grípa til enn frekari ráðstafana dragist deilan á langinn. „Þetta bitnar þá  enn frekar á öryggi og þjónustu. Markmið okkar er að tryggja öryggi. Það er mikil áskorun þegar við erum með örþreytt og allt of fátt starfsfólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert