Mælt með því að keyra hringveginn

Þegar fólk ferðast hringinn í kringum Íslands getur það heimsótt …
Þegar fólk ferðast hringinn í kringum Íslands getur það heimsótt marga töfrandi áningarstaði. Þessi mynd er úr íshelli í Langjökli. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðalag um íslenska hringveginn er í sjötta sæti á lista yfir heimsins bestu ferðalög (e. The World‘s Best Journeys) sem settur var saman af kanadísku ferðaskrifstofunni Flight Network í samstarfi við rúmlega fimm hundruð aðra aðila.

Einvalalið sérfræðinga um alþjóðleg ferðalög var fengið til aðstoða við gerð listans, að því er segir á vef Flight Network. Þar á meðal voru ferðablaðamenn og ferðabloggarar ásamt öðrum ferðaskrifstofum.

Niðurstaða samvinnunnar var listinn sem Flight Network lýsir sem mest ígrundaða og nákvæmasta lista yfir magnaða staði til að heimsækja – lista sem muni hrífa og veita ferðalöngum innblástur um ókomna tíð.

Hringvegurinn

Bílferð um íslenska hringveginn er kjörin leið til þess að skoða stórmerkilegu náttúru þessarar ótrúlegu norrænu eyju. Þessi 1.332 kílómetra vegur fer með þig gegnum fjöll og firnindi, jökla, firði og meðfram ótrúlegum strandlengjum, segir í umfjölluninni.

Sem áhugaverða staði til að skoða á Íslandi er Dettifoss nefndur ásamt Hlíðarfjalli á Akureyri og Langjökli.

Ferðalag hringinn í kring um Ísland mun kveikja ævintýraþrá í hverjum einasta ferðamanni, segir einnig í umfjöllun ferðaskrifstofunnar.

Mögnuð ferðalög á listanum

Leiðangur um Suðurskautslandið trónir á toppi listans og sigling um Galapagoseyjar er í öðru sæti. Lestarferð þvert yfir Rússland með Síberíuhraðlestinni er í sæti númer þrjú á listanum og fjallganga að hinni fornu borg Machu Picchu í Perú er fjórða sæti listans. Þá er bílferð meðfram vesturströnd Bandaríkjanna og Kyrrahafinu í fimmta sætinu.

Gangan upp til Macchu Picchu í Perú er í fjórða …
Gangan upp til Macchu Picchu í Perú er í fjórða sæti listans.

Önnur ferðalög sem komast á listann eru til dæmis sigling til Alaska, bílferð eftir þjóðvegi 66 í Bandaríkjunum, ferðalag eftir Silkiveginum og sigling um Karabíska hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert