Krefur Steingrím um skýr svör

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, fyrirspurn, vegna ávarps Piu Kjærsgaard á hátíðarþingfundi Alþingis á Þingvöllum í gær.

Kjærsgaard var boðið til landsins en á fundinum í gær var þess minnst að 100 ár eru liðin frá und­ir­rit­un sam­bands­samn­ings um full­veldi Íslands, sem tók svo gildi 1. des­em­ber 1918.

Fyrirspurn Jóns Þórs er í fjórum liðum. Í fyrsta lagi spyr hann hver beri ábyrgð á þeim hluta alþjóðastarfs Alþingis að bjóða fulltrúum erlendra ríkja til Íslands fyrir hönd Alþingis.

„Hvenær var forseta danska þingsins formlega boðið að vera með ávarp á hátíðarfundinum á Þingvöllum 18. júlí? Hver tók þá ákvörðun og hvenær, og hvernig var ákvarðanaferlinu háttað?“ spyr Jón Þór í öðru lagi og óskar eftir afritum af öllum samskiptum sem tengjast boðinu.

„Hvenær og með hvaða hætti voru fulltrúar í forsætisnefnd og formenn þingflokka Alþingis upplýstir um að annars vega stæði til að bjóða Pia Kjærsgaard sem forseta danska þingsins á hátíðarfundinn og hins vegar þegar henni hafði verið boðið?“ spyr Jón Þór í þriðja lagi. Hann spyr enn fremur hvort Steingrímur líti svo á að birting tilkynningar á vef Alþingis 20. apríl síðastliðin fullnægði upplýsingaskyldu hans til forsætisnefndar og formanna þingflokka Alþingis.

„Með hve miklum fyrirvara er venjan að Alþingi afturkalli boð fulltrúa erlendra ríkja til Íslands og hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarfundinn á Þingvöllum, og þá með hve miklum fyrirvara svo sómi væri af?“ spyr Jón Þór að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert