Nýja kerfið „hefði getað gengið betur“

Nýtt armbandakerfi var tekið upp á Secret Solstice-hátíðinni sem var …
Nýtt armbandakerfi var tekið upp á Secret Solstice-hátíðinni sem var haldin í júní í Laugardal. Þar var aðeins hægt að greiða með snertilausum armböndum. mbl.is/Valli

Forsvarsmenn tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice segja nýtt fyrirkomulag snertilausra armbanda, sem tónleikagestir millifærðu inn á og borguðu með á hátíðinni, hafa mátt ganga betur, en aðeins var hægt að greiða með snertilausa armbandinu inni á tónleikasvæðinu.

Tónleikagestum var gefinn tveggja vikna frestur eftir að hátíðinni lauk til þess að fá greiddan út afgang af þeim fjárhæðum sem þeir höfðu lagt inn á kortin en auk þess var gestum boðið að nota eftirstöðvarnar sem greiðslu upp í miða á hátíðina á næsta ári.

„Þetta hefði getað gengið betur því við vorum að gera þetta í fyrsta skipti,“ segir Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjenda Secret Solstice. Hann segir að samkvæmt upplýsingum rekstraraðila hafi allir þeir sem sóttu um endurgreiðslu fyrir tilgreindan frest fengið greitt. Hátíðin réð erlendan aðila, belgískt fyrirtæki, til þess að sjá um fyrirkomulag armbandanna. Jón Bjarni segir ekki enn liggja fyrir hve háar eftirstöðvar innborgana verði, þ.e. fjármuna af armböndum sem ekki verði vitjað.

Sjálfvirka kerfið gekk ekki upp

Jón Bjarni segir að allir tónleikagestir hafi fengið tölvupóst með leiðbeiningum eftir að hátíðinni lauk um það hvernig mætti sækja um endurgreiðslu af armbandinu. Nú sé búið að greiða út um sex milljónir króna til tónleikagesta af slíkum endurgreiðslum. „Vandamálið sem við lentum í eftir hátíðina var að þetta átti að vera sjálfvirkt kerfi, þar sem þú gætir sótt um endurgreiðslu og svo myndi leggjast sjálfkrafa inn til baka, en þeir [belgíska fyrirtækið] höfðu ekki gert þetta til Íslands áður og þar lá hikstinn þegar fresturinn rann út.“

Jón Bjarni segir starfsfólk á vegum Secret Solstice hafa aðstoðað tónleikagesti að undanförnu við að nálgast endurgreiðslur sínar. „Við héldum að við gætum byrjað að borga út bara jafnóðum, en svo var það þannig að þeir [belgíska fyrirtækið] vildu safna þessu saman og greiða svo út. Við erum á fullu með fólk í vinnu sem fylgist með tölvupóstum og aðstoðar fólk sem lendir í vandræðum.“

Tveggja vikna fresturinn til þess að sækja um endurgreiðslu af armbandinu rann út í byrjun síðustu viku en ljóst er að einhverjir hafa látið hjá líða að nálgast afgang fjármuna sinna. „Tæknilega séð erum við búin að segja stopp við þessu, að fólk sé að sækja um. Við getum ekki haft endalaust opið fyrir að fólk sæki um, við getum ekki verið að sinna þessu fram eftir ári. En það er bara verið að ganga frá þessu,“ segir Jón Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert