RÚV fékk ekki greitt vegna útsendingar

Það lögðu ekki margir leið sína á Þingvelli í gær …
Það lögðu ekki margir leið sína á Þingvelli í gær til að fylgjast með hátíðarfundi Alþingis. mbl.is/​Hari

Ekki hafa fengist svör um hver endanlegur kostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum er. Greint hefur verið frá því að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 45 milljóna króna kostnaði en nú er gert ráð fyrir 80 milljónum. Upphafleg kostnaðaráætlun var gerð fyrir 18 árum.

Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV, sem var með beina útsendingu frá fundinum, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að Ríkisútvarpið hafi ekki fengið neitt greitt frá Alþingi vegna útsendingarinnar í gær.

Helgi Bernód­us­son, skrif­stofu­stjóri Alþing­is, sagði í gær að skýra mætti aukinn kostnað vegna þess að upphafleg kostnaðaráætlun miðaði við kostnað af síðasta hátíðar­fundi á Þing­völl­um sem hald­inn var árið 2000.

Helgi sagði að meiri kröfur væru gerðar til sjónvarpsútsendinga núna en fyrir 18 ár og það sé dýrt.

Gert hafði verið ráð fyrir nokkrum þúsundum gesta en talið er að þeir hafi verið rúmlega 300 talsins og hluti þeirra erlendir ferðamenn.

Forstöðumaður skrifstofu Alþingis sagði að ekki væri hægt að segja til um kostnaðinn að svo stöddu og sagði að unnið væri að frágangi eftir atburði gærdagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert