Skrifstofur Landspítala mögulega í Skaftahlíð

Húsin tvö sem Reitir bjóða Landspítalanum til leigu eru rúmlega …
Húsin tvö sem Reitir bjóða Landspítalanum til leigu eru rúmlega 5.000 fermetrar. Ef samningar nást flytja skrifstofur spítalans þangað. mbl.is/Hari

Ríkiskaup fyrir hönd ríkissjóðs auglýstu í júní síðastliðnum eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir skrifstofur Landspítalans.

Eitt tilboð barst og var það frá fasteignafélaginu Reitum. Buðu Reitir húsin Skaftahlíð 24 og 24a, þar sem miðlar 365, Stöð 2, Bylgjan og Fréttablaðið, hafa verið til húsa nokkur undanfarin ár.

Samningaviðræður standa yfir og er stefnan að ná niðurstöðu í þær í lok ágúst, samkvæmt upplýsingum Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítalans. Ingólfur segir að Ríkiskaup vinni að þessu verkefni í nánu samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Skrifstofur Landspítalans eru nú á Eiríksstöðum við Eiríksgötu 5, rétt við Hallgrímskirkju. Til stendur að taka það húsnæði undir klíníska starfsemi spítalans, en m.a. hefur vantað húsnæði fyrir göngudeildir spítalans.

Í auglýsingu Ríkiskaupa er tiltekið að mikilvægt sé að hið nýja húsnæði verði í nálægð aðalstarfsstöðvar Landspítala við Hringbraut og í Fossvogi. Húsrýmisþörf var áætluð tæpir 5.000 fermetrar og miðað við að húsnæðið verði tekið á langtímaleigu til 15 ára.

Húsin tvö við Skaftahlíð eru samtals 5.030 fermetrar. Skaftahlíð 24, norðurhús, er fjórar hæðir og kjallari. Skaftahlíð 24a, suðurhús (gamli Tónabær), er tvær hæðir og kjallari.

Þann 1. desember sl. tók Vodafone (nú Sýn) yfir rekstur allra miðla 365 að Fréttablaðinu undanskildu. Til stendur að færa starfsemi þeirra yfir í nýjar höfuðstöðvar Sýnar á Suðurlandsbraut 8, en þær voru teknar í gagnið í fyrrasumar.

Fréttablaðið mun flytja starfsemi sína væntanlega í haust, samkvæmt upplýsingum Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda blaðsins.

„Það ætti að koma í ljós fljótlega hvert og nákvæmlega hvenær það verður,“ segir Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert