Afbóka ferðir vegna blendingshvalsins

Veiðar á langreyðum hófust aftur í sumar eftir tveggja ára …
Veiðar á langreyðum hófust aftur í sumar eftir tveggja ára hlé. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svo viðkvæmt. Þegar það koma upp svona mál fer alveg svakalega neikvæð umræða af stað um Ísland. Þetta hefur mjög slæm áhrif. Við missum svolítið trúverðugleikann á að við séum að umgangast náttúruna af virðingu,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands og framkvæmdastýra Eldingar. 

Rannveig segir veiði Hvals hf. á blendingshvali aðfaranótt 8. júlí síðastliðinn hafa haft gífurlega neikvæð áhrif á ímynd landsins erlendis í för með sér. Erlendir fjölmiðlar greindu margir hverjir frá því að blendingshvalurinn hafi verið steypireyður þó að Hafrannsóknastofnun hafi síðan staðfest uppruna hvalsins í gær í kjölfar erfðagreiningar. 

Rannveig Grétarsdóttir stýrir Eldingu og er jafnframt formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.
Rannveig Grétarsdóttir stýrir Eldingu og er jafnframt formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar langreyðaveiðarnar byrjuðu aftur fundum við strax fyrir mikilli andstöðu erlendis. Við höfum aldrei, öll þessu átján ár sem ég hef rekið mitt fyrirtæki, fengið jafnmikil viðbrögð og út af þessari veiði. Fólk er bara reitt og segir að það eigi ekkert að veiða blendingshval frekar en steypireyði. Það er ekkert leyfi fyrir því heldur.“

Þá segir Rannveig að mikill fjöldi viðskiptavina Eldingar hafi hætt við komu sína í kjölfar veiðarinnar og þeirrar umfjöllunar sem fylgdi. „Þetta veldur okkur vandræðum og fólk er strax farið að senda okkur pósta um að það ætli ekki að koma vegna þess að það er svo ósátt við afstöðu Íslands til þessara mála. Þetta mál ýfði umræðuna svolítið upp erlendis og kveikti á því að þetta væri enn þá í gangi.“

Rannveig bendir einnig á að ákveðinn samdráttur hafi verið í ferðaþjónustunni það sem af er sumars miðað við síðustu ár og að neikvæð umræða í fjölmiðlum geti ýtt undir þá þróun.

„Það er samdráttur í allri ferðaþjónustu núna í sumar og hefur verið síðan eftir páska og virðist ekki ætla að taka við sér. Allt svona hjálpar ekki til. Við erum ekki glöð með þetta. Ég skil ekki af hverju stjórnvöld vilja hanga á þessu þegar það virðist ekki vera neinn efnahagslegur ávinningur af þessu og þetta veldur okkur bara vandræðum.“

Veiðar Hvals hf. á langreyðum hófust aftur í sumar eftir tveggja ára hlé. Í samtali við mbl.is í gær sagði Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, að um fjörutíu hvölum hafi verið landað það sem af er sumars. Þar af var blendingurinn umdeildi númer 22 í röðinni. 

Rannveig segist vona að stjórnvöld komi til með að endurskoða stefnu sína í sambandi við hvalveiðar en er ekki of bjartsýn á að eitthvað gerist. „Hvalaskoðunarsamtökin eru búin að vera að bíða núna í þrjá mánuði eftir að fá að vita hvort að við fáum fulltrúa í sendinefnd Íslands hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það er eins og þeir vilji ekki hreyfa við þessu. Það er eins og þeir vilji ekki fá aðra rödd inn í umræðuna heldur en þær sem vilja hvalveiðar. Þetta er svo rótgróið.“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hann sæi ekki ástæðu til að endurskoða hvalveiðileyfi án þess að fyrir því væri vísinda- eða hagfræðilegur grundvöllur. 

„Í maí síðastliðnum óskaði ég eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin myndi meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar. Jafnframt óskaði ég eftir því við Hafrannsóknastofnun að meta fæðuþörf hvala og vægi hennar í lífríki sjávar hér við land,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is 

„Á grundvelli meðal annars þessara upplýsinga mun ég í haust móta ákvörðun mína um hvort gefin verði út áframhaldandi kvóti til hvalveiða þegar núverandi kvótatímabili líkur við lok þessa árs. Með þeim hætti verður ákvörðun um áframhald hvalveiða tekin á grundvelli nýrra og traustra upplýsinga.”

Frá af­hend­ingu und­ir­skrift­anna í maí.
Frá af­hend­ingu und­ir­skrift­anna í maí. mbl.is/Valli

„Ákvarðanir stjórnvalda í þessu máli verða að byggja á einhverri röklegri niðurstöðu og grunnurinn að slíku er vísindaleg ráðgjöf og umræða. Það verður að koma í ljós hvernig úr þessu spilast. Það eru bæði plúsar og mínusar í þessu máli eins og flestu,“ sagði Kristján. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert