Allt á hvolfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri hefur tekið við sex konum frá Landspítalanum undanfarnar tvær vikur og þar hafa tvær ljósmæður sagt starfi sínu lausu í gær og í dag. Álagið er mikið og sækja þurft hefur um undanþágu frá yfirvinnubanninu í tvígang.

„Við erum búin að vera með eina konu frá Landspítalanum í dag og í gær og í heildina höfum við verið með fimm eða sex konur síðustu tvær vikur. Við höfum líka neitað að taka á móti. Svo höfum við átt að taka á móti fleirum en hlutirnir hafa leysts, þær hafa verið búnar að fæða áður en Landspítalinn gat sent þær,“ segir Edda Guðrún Kristinsdóttir, ljósmóðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK).

Hún segir sjúkrahúsið ekki taka á móti fleirum en hægt er að sinna, en að von sé á fleiri konum frá Landspítalanum eftir helgi.

Tvær ljósmæður á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa sagt starfi sínu …
Tvær ljósmæður á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa sagt starfi sínu lausu í gær og í dag. mbl/Arnþór Birkisson

Um ástandið vegna yfirvinnubannsins segir Edda að það sé alvarlegt. „Það er búið að vera allt á hvolfi hérna í morgun. Við erum búin að þurfa að fá undanþágu fyrir tvær ljósmæður á morgunvaktinni í dag og næturvaktin komst ekki heim á réttum tíma. Það er búið að vera mjög mikið að gera.“

Edda segir helgina illa mannaða, en að dagurinn í dag fari í að leysa þau vandamál. „Ég er að reyna að koma á einhverjum bakvöktum til þess að uppfylla öryggismönnun.“

„Svo get ég bætt því við að það hafa tvær ljósmæður sagt starfi sínu lausu hér við SAK í gær og í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert