Blendingurinn fer ekki úr landi

Blendingar eru ekki friðaðir, líkt og steypireyðar, en hvalurinn er …
Blendingar eru ekki friðaðir, líkt og steypireyðar, en hvalurinn er talin afurð friðaðrar tegundar. Ljósmynd/Hard To Port

„það stendur ekki til að flytja kjötið úr landi,“ segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við mbl.is spurður hvort kjötið af blendingshvalnum sem veiddist á dögunum verði flutt úr landi. Spurningamerki hafa verið sett við hvort heimilt sé að flytja kjötið úr landi vegna aðildar Íslands að CITES-samningnum.

Heimildir hádegisfrétta Bylgjunnar hjá Fiskistofu hermdu að aðild Íslands og Japans að CITES-samningnum geri það að verkum að óheimilt sé að flytja kjöt blendingsins úr landi til Japans, þar sem blendingurinn telst afurð dýrs í útrýmingarhættu.

Það er ekki undir Fiskistofu komið að leggja mat á það hvort heimilt sé að flytja úr landi hvalkjöt, segir Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, í samtali við blaðamann mbl.is. Það er á forræði japanskra stjórnvalda að taka ákvarðanir um innflutning.

Hvalurinn sem um ræðir er afkvæmi steypireyðar, sem er á lista yfir hvali í útrýmingarhættu, og langreyðar, sem er ekki í útrýmingarhættu. Talið var um tíma að hvalurinn sem veiddist hafi hugsanlega verið steypireyður, en erfðarannsókn leiddi í ljós að hvalurinn var blendingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert