Fá að setja salerni við Grjótagjá

Þeir sem sótt hafa Grjótagjá hafa ekki allir farið að …
Þeir sem sótt hafa Grjótagjá hafa ekki allir farið að leiðbeiningum á skiltum og hefur Kvennagjá verið lokað. Nú hefur verið veitt undanþága þannig að hægt verður að bæta aðstöðu á svæðinu. Morgunblaðið/Birkir Fanndal

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu, en það hefur bara tekið allt of langan tíma að fá niðurstöðu í málið. Við höfum beðið síðan í apríl,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, í samtali við blaðamann mbl.is.

Hreppurinn hefur fengið samþykkta beiðni um undanþágu frá ákvæðum um grannsvæði vatnsverndarsvæða til þess að hægt verði að heimila landeigendum að koma upp salernisaðstöðu og bílastæðum við vinsæla náttúruperlu.

Vegna slæmrar umgengni gesta í hellinum Grjótagjá ákváðu landeigendur fyrr í mánuðinum að loka fyrir vinsæla baðstaðinn Kvennagjá.

„Virðingarleysið er algjört. Það er ekkert farið eftir skiltunum. Þarna er fólk að hafa hægðir, þvo skóna sína, þvo leirtauið, bursta tennurnar og einnig hafa sumir sofið þarna í gjánni,“ var haft eftir Ólöfu Hallgrímsdóttur, hjá samtökum landeigenda í landi Voga í Mývatnssveit, í Morgunblaðinu 11. júlí.

Kvennagjá var lokað til að vernda svæðið þar til hægt væri að fá leyfi fyrir salernisaðstöðu ásamt því að færa bílastæðin fjær gjánni, að sögn landeigenda. Þessar framkvæmdir hafa verið í deiliskipulagi sveitarfélagsins frá því í apríl, en til þess að hægt yrði að fara í framkvæmdirnar varð að fá undanþágu frá ákvæðum um vatnsverndarsvæði.

Jákvæðar framkvæmdir

Í niðurstöðu sinni segist umhverfisráðuneytið jákvætt gagnvart hugmyndum um að koma fyrir salernisaðstöðu. Þá tekur ráðuneytið undir þau sjónarmið að ætlaðar framkvæmdir séu nauðsynlegar til þess að viðhalda náttúrulegu ástandi og að fyrirhugaðar framkvæmdir dragi úr álagi á svæðinu.

„Nú er undanþágan komin og við getum haldið áfram með þessa vinnu. Sveitarfélagið getur staðfest deiliskipulagið þannig að landeigendur geta farið að vinna eftir þessu mjög svo metnaðarfulla skipulagi og geta hafist handa við að hanna mannvirki og annað,“ segir Þorsteinn.

Ekki er ljóst hvort kvennagjáin opni að nýju í sumar, þar sem endanleg samþykkt deiliskipulagsins mun ekki fara fram fyrr en í ágúst.

Ólöf segir í samtali við mbl.is að landeigendum hafi enn ekki borist bréf frá ráðuneytinu eða erindi frá sveitarfélaginu vegna samþykktar umhverfisráðuneytisins og því sé ekki tímabært að tjá sig þar sem landeigendur hafa ekki haft tök á að kynna sér málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert