Gísli Halldór ráðinn bæjarstjóri Árborgar

Gísli Halldór Halldórsson verður nýr bæjarstjóri Árborgar.
Gísli Halldór Halldórsson verður nýr bæjarstjóri Árborgar. mbl.is/Sigurður Bogi

Gísli Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar verður næsti bæjarstjóri Árborgar. Þetta staðfestir Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Árborgar í samtali við mbl.is, en áður hafði sunnlenska.is greint frá ráðningunni.

Eggert Valur segir að „margir ágætir umsækjendur“ hafi boðið fram krafta sína en að lokum hafi einhugur verið innan meirihluta bæjarstjórnar um að Gísli Halldór væri maðurinn í starfið.

Fimmtán sóttu um stöðuna og sjö þeirra voru boðaðir í viðtöl vegna stöðunnar, en ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs.

Gengið hefur verið frá ráðningasamningi við Gísla Halldór, en þó verður ekki formlega gengið frá ráðningunni fyrr en á næsta fundi bæjarráðs, sem verður þann 2. ágúst. Gísli hefur svo störf síðar í mánuðinum.

Gísli Halldór hefur starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar undanfarin fjögur ár. Áður var hann forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 2006 til 2014, auk þess að gegna formennsku í ýmsum ráðum og nefndum á vegum bæjarins.

Gísli lauk Cand. Oecon-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og námi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2010. Hann er kvæntur Gerði Eðvarsdóttur, fjármálastjóra Snerpu, og eiga þau þrjú uppkomin börn.

Þau hjónin munu flytja í sveitarfélagið á næstu vikum, samkvæmt því sem fram kemur á vef Sunnlenska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert