Komin á nýtt og alvarlegra stig

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/​Hari

Mönnun á meðgöngu- og sængurlegudeild náði ekki upp í verkfallsneyðarlista áður en yfirvinnuverkfall skall á aðfaranótt miðvikudags, og nú hafa bæst við auknir erfiðleikar við að kalla inn ljósmæður til yfirvinnu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.

Páll segir kjaradeilu ljósmæðra hafa færst á nýtt og alvarlegra stig aðfaranótt miðvikudagsins 18. júlí þegar yfirvinnuverkfall bættist við þær uppsagnir sem tóku gildi 1. júlí. Af þessum sökum hefur spítalinn neyðst til þess að flytja þjónustu meðgöngu- og sængurlegudeildar á kvenlækningadeild 21A, sem alla jafna sinnir hlutverki dag-, legu- og bráðamóttökudeildar fyrir konur með bráða kvensjúkdóma.

Í pistlinum nefnir Páll einnig ómskoðun þungaðra kvenna á 11. til 14. viku meðgöngu, en henni verður hætt frá og með mánudeginum 23. júlí. Vikulega fara fram um 65 slíkar ómskoðanir á Landspítalanum, og segir Páll að þrátt fyrir að þær séu ekki bráðnauðsynlegar séu þær hlekkur í víðtæku og öflugu mæðraeftirliti.

Ein á Akureyri og tvær á Akranes í næstu viku

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá upplýsingafulltrúa Landspítalans í dag er ólíklegt að konur geti leitað til annarra stofnana til þess að fá ómskoðun á 11. til 14. viku meðgöngu, en slíkar ómskoðanir eru einungis framkvæmdar á fósturgreiningardeild Landspítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ekki þurfti að grípa til undanþágubeiðna frá yfirvinnuverkfalli ljósmæðra á Landspítalanum nótt, en nokkrar undanþágur hafa verið veittar síðan verkfall hófst. Þá hafa að minnsta kosti tvær konur verið sendar til Akureyrar síðan á miðvikudag. Alls hafa sex konur verið sendar frá Landspítalanum til Akureyrar undanfarnar tvær vikur, en allt stefnir í að ein til viðbótar verði send þangað í næstu viku. Þá verða tvær valkeisaraskurðaðgerðir fluttar upp á Akranes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert