Móttaka hjartveikra gengið vonum framar

Hjartagátt Landspítalans var lokað þann 6. júlí vegna skorts á …
Hjartagátt Landspítalans var lokað þann 6. júlí vegna skorts á starfsfólki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Móttaka bráðveikra hjartasjúklinga á bráðamóttökunni í Fossvogi hefur gengið vonum framar. Þá gengur samrekstur við aðrar þjónustur að mestu vel, að því er fram kemur í forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.

Hjartagátt Landspítalans var lokað þann 6. júlí vegna skorts á starfsfólki og verður hún ekki opnuð fyrr en 3. ágúst. Starfsemi hjartagáttarinnar var alfarið færð yfir á bráðamóttökuna í Fossvogi, þar sem legurýmum og læknum var fjölgað.

Að sögn Páls var undirbúningur vandaður og á starfsfólk á bráðamóttöku, sem og annars staðar á spítalanum, heiður skilið fyrir ósérhlífið starf. „Margt hefur gert reksturinn auðveldari en á horfðist, meðal annars hefur fjöldi sjúklinga sem til okkar leitar verið í lægra meðaltali og ýmislegt annað innanhúss hefur hjálpað verulega til.“

Páll segir átak í því að fólk sem útskrifast víki úr rúmum strax að morgni greiði fyrir flæði og geri deildum sem fylgja því verklagi kleift að taka við nýjum sjúklingum fyrr. Hann segir þetta geta munað öllu þegar fá laus rúm séu til staðar og hvetur allar deildir til að skoða slíkt vinnulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert