Breytt landslag í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustuaðilar segjast finna fyrir breyttu landslagi.
Ferðaþjónustuaðilar segjast finna fyrir breyttu landslagi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenskir ferðaþjónustuaðilar segjast finna fyrir breyttu landslagi í greininni og segja íslensku krónuna spila þar stórt hlutverk. Erlendum ferðamönnum finnist Ísland orðinn of dýr áfangastaður sem valdi samdrætti á mörgum sviðum, en þó sé jafn stígandi í svokallaðri lúxusferðamennsku. 

Á dögunum sagði mbl.is frá því að rússneskur auðkýfingur hefði afbókað ferð fyrir 200 milljónir í Eystri-Rangá. Í þeirri ferð var leiga á veiðiskála, laxveiðileyfi og bókun á nokkrum þyrlum, svo eitthvað sé nefnt. 

Breyting á samsetningu í lúxusferðamennsku

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár, segir að helst sé jafnvægi að finna í svokallaðri lúxusferðamennsku. „Ég held að landslagið í lúxusferðamennskunni sé alveg þokkalega heilbrigt og jafn stígandi í því. Sá mikli hvellur sem varð í milliklassa/meðaltúrisma skilaði sér ekki með sama hætti inn í lúxusferðamennskuna, þar hefur vöxturinn verið jafn og stígandi.“

Hann segir jafnframt að talsverð breyting sé á samsetningu þeirra, sem sæki í lúxusferðir. „Hjá okkur hefur orðið mikil breyting. Við höfum farið úr því að hafa uppistöðuna Evrópubúa yfir í að vera núna með flesta Bandaríkjamenn og Kanadamenn auk þess sem nýir aðilar skjóta upp kollinum, svo sem frá Mexíkó og Brasilíu.“

Ísland dýrt heim að sækja

Friðrik rekur jafnframt Hálendismiðstöðina í Hrauneyjum og segir að þar sé rekstrarumhverfið gjörólíkt frá því sem áður var. „Í hópaferðabransanum er það gjörólíkt. Stór hluti þeirra ferðamanna, sem ferðast í hópum, kom frá Evrópu og þar er mikill samdráttur. Því miður heyri ég það að utan við þjóðveg eitt, austan við Jökulsárlón og að mestu leyti hringinn, þá virðist vera þyngra undir fæti og stefni jafnvel í það að fyrirtæki loki eða gefist upp á að hafa opið nema yfir hásumarið,“ segir Friðrik.

Hann segir að erlendum ferðamönnum þyki Ísland orðið dýrt heim að sækja. „Við finnum það og jafnvel þeir sem koma í lúxusferðir hingað til lands láta okkur vel vita af því að þeim finnist Ísland orðið gríðarlega dýrt. Það er svo sem ekki við öðru að búast, krónan er svo rosalega sterk að það hefur ekki bara áhrif á ferðaþjóustuna heldur hefur það neikvæð áhrif á allan samkeppnisiðnað og sjávarútveg á Íslandi. Þetta sterka gengi krónunnar á eftir að koma okkur í koll, við þekkjum það frá fyrri tíð,” segir Friðrik.

Spurður hvort Ísland sé á niðurleið hvað hina miklu aðsókn erlendra ferðamanna að undanförnu varðar segir Friðrik að algeng viðskiptalögmál gildi í þeim efnum. „Það er stundum sagt að það sé kalt á toppnum. Við skutumst þangað á óþægilega miklum hraða og áhuginn á ferðum til Íslands er ennþá mikill svo nú er mest um vert að standa vaktina vel. Við þurfum að leggja enn harðar að okkur en áður í bættum gæðum og þjónustu og sinna markaðsmálunum af kostgæfni, en versti þröskuldurinn í vegi okkar er ósjálfbært gengi krónunnar,“ segir Friðrik.  

Næsti vetur verði flókinn fyrir ferðaþjónustuna

Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, tekur í sama streng og Friðrik og segir að breytt mynstur í kauphegðun fólks valdi því að ferðamenn eyði minna, m.a. vegna sterkrar krónu. „Ég held að næsti vetur verði mjög flókinn fyrir ferðaþjónustuna, hann verður bara erfiður. Það væri óvarlegt að áætla neitt annað. Síðan er náttúrulega veðrið, það er hvert slæma metið að falla á eftir öðru veðurfarslega og þarf að fara öld aftur í tímann til þess að finna jafn slæmt veður. Þannig að þetta eru verulega breytt skiliyrði,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert